Erlent

Græða upp tug­þúsundir fer­kíló­metra til að ná lofts­lags­mark­miði

Kjartan Kjartansson skrifar
Kirsuberjatré í bænum Nianhuawan í Jiangsu-héraði í Kína. Til stendur að gróðusetja tré af ýmsu tagi í stórum stíl í Kína til að ná loftslagsmarkmiðum landsins á næstu árum.
Kirsuberjatré í bænum Nianhuawan í Jiangsu-héraði í Kína. Til stendur að gróðusetja tré af ýmsu tagi í stórum stíl í Kína til að ná loftslagsmarkmiðum landsins á næstu árum. Vísir/EPA

Kínversk stjórnvöld stefna að því að gróðursetja tré á um 36.000 ferkílómetrum lands á ári fram til ársins 2025 í því skyni að færast nær markmiði sínu um að ná kolefnishlutleysi síðar á þessari öld og bæta vistkerfi.

Stefna kínverskra stjórnvalda er að losun Kína á gróðurhúsalofttegundum verði hlutlaus fyrir árið 2060, að losun kolefnis verði ekki meiri en það magn sem er bundið. Þau hafa lengi reitt sig á skógrækt sem hluta af loftslagsaðgeðrum sínum.

Nú stendur til að hleypa auknum krafti í skógræktina. Landsvæðið sem stendur til að rækta upp á hverju ári er stærra en heildarflatarmál Belgíu, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

„Fyrir 2035 munu gæði og stöðugleiki þjóðskóga, gresja, votlendis og eyðimerkurvistkerfa vera uppfærð verulega,“ segir Li Chunliang, aðstoðarforstöðumaður Skóga- og graslendisnefndar kínverska ríkisins.

Með aðgerðunum á gróðurþekja Kína að aukast úr 23,04% í 24,1% fyrir lok árs 2025. Li tók ekki fram hvers konar tré yrðu gróðursett. Fimm ára áætlunin kveður á um að treyst verði á náttúrulegan uppvöxt að einhverju leyti sem Reuters segir benda til þess að mismunandi trjátegundir verði notaðar til að rækta upp land.

Áætlunin gerir einnig ráð fyrir að þjóðgarðar landsins verði stækkaðir og að gripið verði til aðgerða til þess að tengja saman búsvæði dýra sem menn hafa skipt upp með umsvifum sínum í gegnum tíðina. Þá stendur til að skera upp herör gegn ólöglegum viðskiptum með villt dýr.

Gróðursetja þarf gríðarlegt magn trjáa til þess að vega upp losun Kínverja á gróðurhúsalofttegundum. Kína losar nú mest allra ríkja í heiminum. 

Ný greining markaðsrannsóknafyrirtækisins Comparethemarket.com sem var birt í dag bendir til þess að gróðursetja þyrfti fleiri en fimmtán milljónir trjáa á hverju ári til að núlla út losun frá Peking einni og sér.


Tengdar fréttir

Tugir nýrra kolaorkuvera á teikniborðinu í Kína

Tilkynnt hefur verið um áform um byggingu átján nýrra kolaorkuvera í Kína á fyrri hluta þessa árs og þá liggja fyrir tillögur að 43 til viðbótar. Kolabruni er stærsta einstaka uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda í heiminum.

„Sturlun“ að halda óbreyttum takti í losun

Jafnvel þó að losun gróðurhúsalofttegunda nái toppi fyrir miðja öldina og dragist saman um helming fyrir lok hennar færi hnattræn hlýnun vel umfram mörk Parísarsamkomulagsins. Íslenskur loftslagsfræðingur segir það „sturlun“ að halda óbreyttum takti í losun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.