Sport

Fyrr­verandi lands­liðs­maður í körfu­bolta nú sterkasti maður Ís­lands

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stefán Karel var einkar lunkinn körfuboltamaður fyrir nokkrum árum síðan.
Stefán Karel var einkar lunkinn körfuboltamaður fyrir nokkrum árum síðan. Vísir/Stefán

Stefán Karel Torfason, fyrrverandi landsliðsmaður í körfubolta, sigraði í keppninni um sterkasta mann Íslands sem fram fór nýliðna helgi. Keppt var á Selfossi á laugardag en úrslitin fóru fram í Reiðhöllinni í Víðidal á sunnudag.

Stefán Karel lék á sínum tím með Snæfelli í efstu deild hér á landi en eftir að færa sig um set til ÍR árið 2016 þurfi hann að leggja skóna á hilluna. Aðeins 22 ára gamall hafði Stefán Karel einfaldlega fengið of mörg höfuðhögg við að spila körfubolta og gat ekki haldið áfram að æfa eða spila vegna afleiðinga þeirra.

Honum hefur þó tekist að finna sér aðra íþrótt þar sem töluvert minni hætta er á höfuðhöggum. Stefán Karel sneri sér að kraftlyftingum og varð um helgina sterkasti maður Íslands. Áhugi hans kemur eflaust úr föðurlegg en Torfi Ólafsson, faðir Stefáns, keppti fimm sinnum í keppninni um sterkasta mann í heimi á tíunda áratug síðustu aldar.

Stefán Karel er í dag sterkasti maður Íslands.Vikublaðið

Stefán Karel mætti Eyþóri Melsteð Ingólfssyni í úrslitum mótsins og bar sigur úr bítum þar sem hann gat gengið lengra með Húsafellshelluna.

Með sigrinum tryggði Stefán Karel sér þátttökurétt á World´s Ultimate Strongman-mótinu sem fram fer í Flórídaríki í Bandaríkjunum í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×