Sport

Kláraði hlaupið eftir að hafa meiðst á hásin en var dæmd úr keppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katarina Johnson-Thompson haltrar hér í mark en á bak við hana má sjá hjólastólinn sem hún afþakkaði.
Katarina Johnson-Thompson haltrar hér í mark en á bak við hana má sjá hjólastólinn sem hún afþakkaði. AP/Petr David Josek

Breska sjöþrautarkonan Katarina Johnson-Thompson er úr leik á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir að hafa meiðst í 200 metra hlaupinu.

Þetta var lokagrein dagsins í sjöþrautinni og Johnson-Thompson byrjaði 200 metra hlaupið vel.

Bretar og Johnson-Thompson gerðu sér vonir um að hún kæmist loksins á pall á Ólympíuleikum eftir áratuga baráttu en svo verður ekki.

Hún hafði verið að glíma við hásinarmeiðsli í keppninni og í beygjunni þá tóku þau sig upp og hún varð að hætta keppni.

Johnson-Thompson lá um tíma á jörðinni en vildi ekki hjálp frá læknaliðinu sem kom inn á með hjólastól.

Johnson-Thompson hoppaði hins vegar af stað á einum fæti og haltraði síðan í mark.

Johnson-Thompson fékk þó ekki tímann skráðan, þótt lélegur væri, því hún var dæmd úr leik vegna reglu 17.31. Þar segir að keppandi megi ekki fara yfir á aðra braut.

Það gerði Johnson-Thompson þegar hún féll meidd á jörðina. Hún hafði því ekkert upp úr því að klára keppnina.

Benelux löndin eiga nú þær þrjár fyrstu á þessum leikum. Hin hollenska Anouk Vetter er efst í sjöþraut eftir fyrri daginn með 3968 stig. Belgarnir Noor Vidts (3941 stig) og Nafissatou Thiam (3921 stig) koma í næstu sætum en hin bandaríska Anníe Kunz er fjórða með 3870 stig.

Fjórar greinar voru í dag en þrjár síðustu greinarnar eru síðan á morgun en það eru langstökk, spjótkast og 800 metra hlaup.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×