Sport

Schoenmaker með fyrsta heimsmet einstaklinga á þessum Ólympíuleikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tatjana Schoenmaker sér hér að hún er ekki aðeins Ólympíumeistari heldur líka búin að setja nýtt heimsmet.
Tatjana Schoenmaker sér hér að hún er ekki aðeins Ólympíumeistari heldur líka búin að setja nýtt heimsmet. AP/Gregory Bull

Það var fjör í sundlauginni á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt þar sem sigurganga Ástrala á leikunum hélt áfram, sundkona frá Suður-Afríku sló heimsmet sem hafði lifað í átta ár og Rússinn Evgeny Rylov tryggði sér sín önnur gullverðlaun á leikunum.

Tatjana Schoenmaker frá Suður-Afríku tryggði sér sigur í 200 metra bringusundi með því að koma í mark á nýju heimsmeti, 2 mínútum og 18,95 sekúndum. Metið er því ekki lengur í eigu hinnar dönsku Rikke Moller Pedersen en það var 2:19,11 mín og hafði lifað frá árinu 2013.

Schoenmaker kom á undan þeim bandarísku Lilly King og Annie Lazor sem fengu silfur og brons. King missti því af gullinu í báðum bringusundunum en hún varð þriðja í 100 metra bringusundinu.

Þetta var þriðja heimsmetið í sundkeppni Ólympíuleikanna en það fyrsta sem fellur í einstaklingskeppni þar sem hin tvö komu í boðsundum.

Rússinn Evgeny Rylov fylgdi eftir sigri í 100 metra baksundi með því að vinna 200 metra baksundið í nótt. Hann synti á 1:53,29 mín. og setti nýtt Ólympíumet. Ryan Murphy frá Bandaríkjunum féll silfur og Bretinn Luke Greenbank tók bronsið. Bandaríkjamenn höfðu unnið öll baksund á síðustu sex Ólympíuleikum en Rylov endaði þá sigurgöngu með þessum gullverðlaunum sínum.

Ástralinn Emma McKeon setti Ólympíumet þegar hún vann 100 metra skriðsundið á 51,96 sekúndum en hún varð aðeins önnur konan til að synda undir 52 sekúndum. Heimsmetið á enn hin sænska Sarah Sjöström sem endaði fjórða í sundinu í nótt. Ástralar hafa nú unnið sex gullverðlaun í sundlauginni á leikunum en konurnar hafa unnið fimm þeirra.

Siobhán Haughey frá Hong Kong fékk silfrið og hin ástralska Cate Campbell fékk bronsverðlaunin. Þetta var annað silfur Haughey á leikunum en hún varð líka önnur í 200 metra skriðsundi en þá á eftir öðrum Ástrala, Ariarne Titmus.

Kínverjinn Wang Shun vann 200 metra fjórsund karla á nýju asísku meti en Bretinn Duncan Scott fékk silfur og Svisslendingurinn Jérémy Desplanches tók bronsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×