KR var fyrir leik kvöldsins á toppi deildarinnar með 28 stig eftir ellefu leiki og hafði unnið níu af síðustu tíu leikjum sínum þar sem eina tapið kom í fyrstu umferð gegn Augnabliki. Flestir bjuggust því við sigri gestanna gegn Skagaliði í fallbaráttu.
Skagakonur ætluðu þó ekki að gefa neitt eftir og fengu betri færin í markalausum fyrri hálfleik. Þá komst ÍA yfir á 69. mínútu með glæsimarki Mckenna Akimi Davidson sem þrumaðu boltanum í vinkilinn utan teigs.
Allt virtist stefna í sigur heimakvenna en á annarri mínútu uppbótartíma tókst Kristínu Sverrisdóttur að jafna leikinn með langskoti sem söng í netinu.
Leikurinn endaði því með 1-1 jafntefli sem þýðir að KR hefur leikið ellefu leiki í röð án taps og ÍA verður af mikilvægum stigum í botnbaráttunni. KR er með 29 stig á toppnum, þremur á undan FH og fjórum á undan Aftureldingu, sem berjast við Vesturbæinga um titilinn.
ÍA er með ellefu stig í áttunda sæti, aðeins tveimur stigum á undan HK og þremur á undan botnliði Augnabliks þar fyrir neðan.