Sport

27 ára Norðmaður vann fyrsta gull Norðurlandabúa á leikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristian Blummenfelt fagnar sigri og gullverðlaunum á Ólympíuleikunum.
Kristian Blummenfelt fagnar sigri og gullverðlaunum á Ólympíuleikunum. AP/David Goldman

Norðmaðurinn Kristian Blummenfelt vann gull í þríþraut karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt. Hann var ekki aðeins fyrsti gullverðlaunahafi Norðmanna á leikunum heldur einnig sá fyrsti frá Norðurlöndum.

Blummenfelt kláraði þríþrautina á einum klukkutíma, 45 mínútum og fjórum sekúndum. Hann var ellefu sekúndum á undan Alex Yee frá Bretlandi sem fékk silfur. Bronsið fór síðan til Hayden Wilde frá Nýja-Sjálandi.

Það var eins og hinn norski trúði ekki sínum eigin augum þegar hann kom á undan öllum öðrum í mark.

Blummenfelt keyrði sig algjörlega út og féll örmagna í jörðina eftir að hann kom í mark. Hann þurfti í framhaldinu á læknishjálp að halda.

Blummenfelt varð í þrettánda sæti á síðustu Ólympíuleikum fyrir fimm árum síðan. Hann er því að hækka sig mikið á milli leika.

„Ég vissi að ég hefði ekki hraðann í lokasprettinn þannig að ég varð að láta vaða síðustu fimm mínúturnar. Ég kláraði mig alveg og það var ekki mikið af orku eftir. Þetta er æðisleg tilfinning og ég er ótrúlega feginn og rosalega ánægður,“ sagði Kristian Blummenfelt við Verdens Gang.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.