Fótbolti

Kveðjunum rigndi yfir Hjört frá stuðnings­­mönnum Brøndby

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hjörtur lyftir danska meistaratitlinum á loft í vor.
Hjörtur lyftir danska meistaratitlinum á loft í vor. Lars Ronbog / FrontZoneSport

Hjörtur Hermannsson hefur yfirgefið dönsku meistarana í Brøndby og er kominn í ítölsku B-deildina.

Þetta var staðfest í fyrrakvöld en Hjörtur skrifaði undir samning við Pisa eftir að samningur hans rann út.

Hjörtur varð bæði bikarmeistari og danskur meistari með Brøndby en hann þakkaði fyrir sig á Twitter-síðu sinni í gær.

„Fimm ár, plús 150 leikjum síðar og loksins er félagið á þeim stað sem það á að vera, á toppi danska fótboltans,“ skrifaði Hjörtur.

„Til stuðningsmannanna, leikmannanna, þjálfarateymisins og allra í kringum Bröndby, þá segi ég tak. Við sjáumst vonandi aftur. Einu sinni Bröndby, alltaf Bröndby. Sjáumst, Hjörtur.“

Það vantaði ekki viðbrögðin við færslu Hjartar en þegar þetta er skrifað hafa yfir þúsund líkað við færsluna og margir svarað honum til bak:

„Takk fyrir atvinnumannalegt viðhorf. Þú kvartaðir aldrei eða varst með slæmt viðhorf, bara lagðir þig hart fram. Ánægjulegt!“ skrifaði Lean Thomsen.

„Takk fyrir í þetta skiptið Hjörtur! Ekki allir leikmenn Bröndby sem ná að vinna báða þá bikara sem eru í boði í Danmörku. Gangi þér vel,“ skrifaði Casper Valentin.

„Það hefur verið frábært að sjá hvernig þú hefur á hverju einasta ári unnið þér sæti aftur í liðinu og aldrei kvartað yfir neinu. Þú ert ekta Hjörtur, ekki svo mikið rugl.“

Fleiri kveðjur má lesa undir færslu Hjartar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×