Innlent

Grunaður um manndráp en komst úr landi á nýju vegabréfi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 
Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.  Vísir/ArnarHalldórs

Til stendur að gefa út evrópska handtökuskipun vegna rúmensks karlmanns sem flúði land á dögunum þrátt fyrir að vera í farbanni grunaður um manndráp. Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir lögreglu vita hvar maðurinn er niðurkominn en talið er að hann hafi orðið sér út um nýtt vegabréf og þannig komist út landi.

Daníel Eiríksson fannst illa leikinn fyrir utan heimili sitt í Kópavogi þann 2. apríl síðastliðinn. Upphaflega voru þrír rúmenskir karlmenn handteknir en tveimur var sleppt í framhaldinu. Daníel hlaut talsverða höfuðáverka en grunur leikur á að bíl hafi verið ekið á hann, eða að hann hafi dregist eftir bifreiðinni. Daginn eftir var Daníel úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi.

Rúmenskur karlmaður sem grunaður er um að hafa orðið Daníeli að bana flúði land á dögunum þrátt fyrir að hafa verið í farbanni til 1. september.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir hann hafi orðið sér úti um nýtt vegabréf.

„Það virðist sem svo að hann hafa orðið sér úti um nýtt vegabréf en þegar hann var settur í þetta farbann þá var lagt hald á hans vegabréf. Farbann er ekkert öruggt úrræði og það er svo sem okkar reynsla að menn hafa alveg geta farið úr landi þó þeir sæti farbanni ef einbeittur vilji er fyrir hendi til að koma sér út land,“ segir Margeir. 

Það sé afar slæmt.

„Því þetta eru þau úrræði sem við höfum og ef menn geta farið svona auðveldlega framhjá því þá er það mjög slæmt,“ segir Margeir. 

Það sé verið að rannsaka hvernig maður sem er í farbanni hafi komist í gegnum flugvöllinn.

Vitið þið hvert hann fór? „Já við erum nú með upplýsingar um það og eru í samskiptum við hann í gegnum verjanda hans,“ segir Margeir.  

Maðurinn hafi flogið til London og þaðan til heimalandsins.

Margeir segir að málið sé nú skoðað í samstarfi við lögreglustjórann á Suðurnesjum.

„Svo erum við bara að verða okkur út um evrópska handtökutilskipun til að gefa hana út,“ segir Margeir. 

Þannig þú ert bjartsýnn á að þið náið manninum aftur til landsins? „Já, við gerum okkar besta. Við leggjum okkur alla fram við það,“ segir Margeir. 


Tengdar fréttir

Sam­skipta­gögn úr síma hins látna leiddu til hand­töku mannanna

Símasamskipti sem lögregla fann í síma mannsins sem lést í Kórahverfi í Kópavogi um helgina leiddu til þess að þrír Rúmenar voru handteknir vegna málsins. Tveimur þeirra hefur nú verið sleppt en sá þriðji sætir gæsluvarðhaldi. Meðal þess sem lögregla rannsakar nú er hvort einhver vitni hafi orðið að atvikinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.