Innlent

Heilsu­gæslu­stöðvum sem bjóða upp á PCR-próf fækkar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
PCR-próf verða aðeins í boði á nokkrum útvöldum heilbrigðisstofnunum á landinu. 
PCR-próf verða aðeins í boði á nokkrum útvöldum heilbrigðisstofnunum á landinu.  Julien Mattia/Anadolu Agency via Getty

Frá og með næstkomandi föstudegi, 16. júlí, verða svokölluð PCR-próf hvergi í boði nema í Reykjavík, Akureyri og Keflavík. Flestir sem ætla til útlanda þurfa að hafa farið í slíkt próf, til að sýna fram á að þeir séu ekki smitaðir af Covid-19, áður en haldið er til útlanda.

Hingað til hefur verið hægt að fara í slík próf á öllum heilsugæslustöðvum en þar hafa orðið breytingar á. Frá og með deginum í dag er ekki hægt að nálgast slík próf á heilsugæslum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.

Frá og með komandi föstudegi verður ekki hægt að fara í slík próf heldur hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Prófin verða því aðeins í boði hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Suðurlandsbraut, á Akureyri og hægt er að fara í hraðpróf í Keflavík. 

Auk þeirra staða er enn boðið upp á PCR-próf á Egilsstöðum og Reyðarfirði og hefur ekki verið tekin ákvörðun um breytingu í þeim efnum hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands að sögn Péturs Heimssonar, framkvæmdastjóra lækninga.

„Hraðprófin eru að sækja í sig veðrið og örugglega 50% sem velja hraðprófin,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún hafði ekkert heyrt um málið þegar fréttastofa hafði samband við hana.

„Ég hugsa kannski að við höfum haft stóran hluta af þessu áður, því fólk er oft að koma sér á suðvesturhornið áður en það fer. Ég er ekki viss um að þetta muni hafa einhver svakaleg áhrif á starfsemi okkar,“ segir Ragnheiður.


Tengdar fréttir

Hrað­próf tekin í notkun hér á landi

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið í notkun hraðpróf til greiningar á kórónuveirunni. Prófin eru ekki notuð við einkennasýnatöku heldur eru þau einungis ætluð þeim sem þurfa að sýna fram á neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku á landamærum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×