Erlent

Suu Kyi dregin fyrir dóm

Kjartan Kjartansson skrifar
Aung San Suu Kyi var leidd fyrir dómara í morgun. Herforingjastjórnin sakar hana um ýmsa glæpi, allt frá því að brjóta sóttvarnareglur til þess að flytja inn talstöðvar fyrir lífverði sína.
Aung San Suu Kyi var leidd fyrir dómara í morgun. Herforingjastjórnin sakar hana um ýmsa glæpi, allt frá því að brjóta sóttvarnareglur til þess að flytja inn talstöðvar fyrir lífverði sína. AP/Peter Dejong

Réttarhöld yfir Aung San Suu Kyi, sem herinn í Búrma steypti af stóli í febrúar, hófust í dag. Mannréttindasamtök telja ákærurnar uppspuna og að herforingjastjórnin vilji ryðja henni úr vegi.

Herinn rændi völdum í Búrma, sem einnig er þekkt sem Mjanmar, í febrúar og hélt því fram að brögð hefðu verið í tafli í kosningum sem fóru fram í fyrra. Alþjóðlegir eftirlitsmenn töldu kosningarnar þó hafa farið vel fram. Suu Kyi hefur verið haldið í stofufangelsi síðan þá. Fleiri leiðtogar stjórnar hennar voru handteknir.

Réttarhöldin yfir Suu Kyi, sem er 75 ára gömul, eru lokuð. Hún er ákærð fyrir að hafa flutt ólöglega inn talstöðvar fyrir lífverði sína, dreifa upplýsingum sem gætu valdið uppnámi á meðal almennings og að brjóta gegn sóttvarnaaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins í kosningabaráttunni í fyrra.

Mannréttindavaktin segir að ákærurnar á hendur Suu Kyi séu „falsaðar“ og að þær eigi sér pólitískar rætur. Ætlun herforingjastjórnarinnar sé að ógilda sigur hennar í kosningunum í fyrra og koma í veg fyrir að hún geti boðið sig fram aftur.

Nýlega lagði herforingjastjórnin fram enn alvarlegri ásakanir um að Suu Kyi hefði brotið lög um ríkisleyndarmál og þegið mútur. Yrði hún sakfelld í því máli gæti hún átt yfir höfði sér áratugi í fangelsi. Réttar verður sérstaklega í því máli síðar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Herinn heldur því fram að hann ætli að boða til nýrra kosninga á næstu tveimur árum. Löng saga er fyrir því að herforingjastjórn landsins lofi kosningum en standi ekki við þau loforð, að sögn AP-fréttastofunnar. Suu Kyi sat meðal anars í stofufangelsi í fimmtán ár eftir misheppnaða uppreisn gegn herforingjastjórninni árið 1988.

Öryggissveitir herforingjastjórnarinnar eru taldar hafa drepið fleiri en átta hundruð manns og handtekið nærri því fimm þúsund manns í tengslum við mótmæli í landinu eftir valdaránið í febrúar.


Tengdar fréttir

Saka Suu Kyi um spillingu í embætti

Herforingjastjórnin í Búrma sakar Aung San Suu Kyi sem hún steypti af stóli forseta um stórfellda spillingu í embætti. Suu Kyi gæti átt yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsi verði hún fundin sek.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×