Erlent

Viðurkenna Suður-Íshafið sem heimshaf

Kjartan Kjartansson skrifar
Suður-Íshafið umvefur Suðurskautslandið. Hlutar þess hlýna nú afar hratt og eiga þátt í að bræða jökla sem ganga fram í sjó neðan frá.
Suður-Íshafið umvefur Suðurskautslandið. Hlutar þess hlýna nú afar hratt og eiga þátt í að bræða jökla sem ganga fram í sjó neðan frá. Vísir/EPA

Suður-Íshafið í kringum Suðurskautslandið verður nú skráð sem fimmta heimshafið á kortum Landafræðifélags Bandaríkjanna í fyrsta skipti í meira en hundrað ára sögu þess. Fram að þessu hefur óeining ríkt um fjölda heimshafanna og félagið hefur aðeins viðurkennt fjögur.

Ekki voru allir á einu máli um nafnið og ytri mörkin þegar Alþjóðasjómælingastofnunin (IHO) lagði til útlínur Suður-Íshafsins, hafsvæðis sem nær frá ströndum Suðurskautslandsins í suðri til 60 breiddargráðu suður í norðri árið 2000. Þess vegna hefur Landafræðifélagið (e. National Geographic Society) merkt hafið á kortum en alltaf með fyrirvara um að ekki séu allir sáttir við skilgreininguna.

Nú hefur félagið ákveðið að viðurkenna Suður-Íshafið formlega. Samkvæmt því verða heimshöfin því fimm á kortum og kortaatlösum sem það gefur út: Norður-Íshafið, Atlantshaf, Indlandshaf, Kyrrahaf og Suður-Íshafið.

„Fólk horfir til okkar um landfræðilegar staðreyndir: hversu margar heimsálfur, hversu mörg lönd, hversu mörg höf? Þar til nú höfum við sagt fjögur höf,“ segir Alex Tait, landfræðingur hjá félaginu, við Washington Post.

Ákvörðun félagsins er talin hafa mikil áhrif því að margir aðrir kortagerðarmenn fylgja fordæmi þess. Landafræðifélagið ætlar að halda sig við skilgreiningu IHO og miða við að Suður-Íshafið nái norður að sextugustu breiddargráðu suður. Drake-sund og Scotia-haf falla þannig fyrir utan Suður-Íshafið.

Suður-Íshafið er sagt einkennast af öflugum pólhverfum hafstraumi sem streymir í kringum Suðurskautslandið í austur.

Margir hafa heyrt talað um höfin sjö en það orðatiltæki á lítið skylt við formlega skilgreiningu á heimshöfunum. Í grein á Vísindavefnum kemur fram að talað hafi verið um sjö hóf í þúsundir ára á ólíkum menningarsvæðum í Evrópu.

Stundum hafi verið átt við hafsvæði á þekktum siglingaleiðum, stundum hafi höfin sjö vísað til hafsvæða í næsta nágrenni en einnig fjarlægra og jafnvel óþekktra hafsvæða. Þannig þurfi ekki að vera að höfin sjö hafi endilega alltaf vísað til sjö tiltekinna hafsvæða heldur alveg eins notað sem samheiti yfir höfin eins og þau voru þekkt hverju sinni.

Mörk Suður-Íshafsins eins og National Geographic Society skilgreinir þau.Matthew W. Chwastyk and Greg Ugiansky, NG Staff

Tengdar fréttir

Enn mikil ó­vissa um á­hrif hlýnunar á Suður­skaut­sísinn

Mannkynið þarf að vera undir það búið að takast á við breitt bil mögulegrar bráðnunar jökla á Suðurskautslandinu í framtíðinni. Tveimur nýjum rannsóknum greinir á um hversu hratt ísinn gæti hopað með áframhaldandi hlýnun jarðar af völdum manna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.