Erlent

Sjö börn í hópi látinna í skot­á­rás í rúss­neskum skóla

Atli Ísleifsson skrifar
Frá vettvangi í Kasan í morgun. Sprenging á einnig að hafa heyrst á svæðinu.
Frá vettvangi í Kasan í morgun. Sprenging á einnig að hafa heyrst á svæðinu. Getty

Átta manns - sjö nemendur og einn kennari - eru látnir eftir skotárás sem gerð var í skóla í borginni Kasan í Tatarstan í Rússlandi í morgun. Þá er 21 sagður hafa særst í árásinni.

Erlendir fjölmiðlar segja að fyrrverandi nemandi við skólann hafi staðið að baki árásinni, en sprenging á einnig að hafa heyrst á skólalóðinni. Er um að ræða „Skóla númer 175“ í borginni.

Upphaflega var greint frá því að það hafi verið tveir árásarmenn að verki, en nú segir að hann sé einn, nítján ára að aldri. Hann hefur verið handtekinn.

Rússneskir fjölmiðlar segja árásarmanninn ekki hafa mætt í próf fyrr í vetur og í kjölfarið verið rekinn úr skólanum.

Sjónvarvottar segja einhverja nemendur hafa stokkuð úr um glugga á þriðju hæð skólabyggingarinnar til að forðast árásarmanninn.

Kasan er fimmta stærsta borg Rússlands og er að finna um átta hundruð kílómetra austur af höfuðborginni Moskvu og við ána Volgu. Íbúarnir telja um 1,3 milljónir.

Fréttin hefur verið uppfærð. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×