Erlent

Telja að kínverska eldflaugin hafi brunnið upp að mestu

Kjartan Kjartansson skrifar
Long March-5 eldflaug sambærileg við þá sem féll inn í lofthjúp jarðar yfir Indlandshafi í nótt.
Long March-5 eldflaug sambærileg við þá sem féll inn í lofthjúp jarðar yfir Indlandshafi í nótt. AP/Zhang Gaoxiang/Xinhua

Geimvísindastofnun Kína fullyrðir að stærsta eldflaug hennar hafi komið inn í lofthjúp jarðar yfir Maldíveyjum í Indlandshafi og brunnið upp að mestu leyti í nótt. Sérfræðingar hafa sakað Kínverja um glannaskap með eldflaugina.

Grannt hefur verið fylgst með Long March 5B-eldflauginni undanfarna daga. Vitað var að hún kæmi aftur niður í lofthjúp jarðar um helgina en ekki var vitað með vissu yfir hvaða svæði hún kæmi til með að hrapa. Eldflaugin var notuð til þess að koma aðalhluta nýrrar geimstöðvar Kínverja á braut um jörðina.

Eldflaugarþrepið var um þrjátíu metrar að lengd og um tuttugu tonn að þyngd. Það er eitt stærsta fyrirbærið sem hefur verið látið falla stjórnlaust inn í lofthjúp jarðar. Lítil hætta var talin á ferðum fyrir fólk á jörðu niðri. Engu að síður urðu eignaskemmdir í Afríku þegar brak úr kínverskri eldflaug rigndi yfir álfuna í fyrra.

Xinhua-ríkifréttastofan kínverska segir að eldflaugarþrepið hafi komið inn í lofthjúpinn klukkan 19:24 að staðartíma í gærkvöldi. Mikill meirihluti þess hafi brunnið algerlega upp í lofthjúpnum.

„Það var alltaf tölfræðilega líklegast að hún félli inn yfir sjó. Svo virðist sem að Kína hafi unnið veðmálið en þetta var samt glannalegt,“ tísti Jonathan McDowell, stjarneðlisfræðingur við Harvard-háskóla sem fylgdist með falli eldflaugarþrepsins til jarðar.

Þá gagnrýndi Bill Nelson, forstjóri bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA, Kína vegna uppákomunnar.

„Það er ljóst að Kína uppfylli ekki ábyrg viðmið varðandi geimrusl þess,“ sagði Nelson í yfirlýsingu, að sögn AP-fréttastofunnar.

Kínverjar hafa áður sætt harðri gagnrýni fyrir umgengni sína í geimnum, sérstaklega eftir að þeir skutu skotflaug til að splundra úreltu veðurgervitungli á braut um jörðu í janúar árið 2007. Eftir varð braksveimur sem ógnaði öðrum gervihnöttum og geimferjum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×