Innlent

Þrettán í sóttkví vegna smits í Krónunni: „Það fór strax allt í gang hjá okkur“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ásta segir fyrirtækið hafa unnið markvisst að því að upplýsa starfsmenn sem eru af erlendum uppruna um skimunina vegna Covid-19, að hún sé aðgengileg og gjaldfrjáls.
Ásta segir fyrirtækið hafa unnið markvisst að því að upplýsa starfsmenn sem eru af erlendum uppruna um skimunina vegna Covid-19, að hún sé aðgengileg og gjaldfrjáls. Vísir/Egill

Þrettán starfsmenn Krónunnar eru komnir í sóttkví eftir að starfsmaður verslanakeðjunar í Austurveri greindist með Covid-19 í gær. Smitið tengist því hópsmitinu sem upp er komið á leikskólanum Jöfra.

Að sögn Ástu S. Fjeldsted, framkvæmdastjóra Krónunnar, var starfsmaðurinn ekki með einkenni og algjörlega grunlaus þegar smitrakningarteymið hafði samband við hann seint á laugardag.

Starfsmaðurinn fór í skimun á í gær og fékk niðurstöðurnar í gærkvöldi.

Hann lét yfirmenn sína hjá Krónunni samstundis vita og unnið var að sótthreinsun í versluninni fram eftir nóttu.

„Það fór strax allt í gang hjá okkur,“ segir Ásta. Hún segist ekki hafa sérstakar áhyggur af stöðunni, þar sem starfsmenn séu með grímur og þá séu aukin þrif í verslununum vegna kórónuveirufaraldursins.

Enginn annar starfsmaður sé með einkenni eins og er en öllum sem voru í tengslum við smitaða starfsmanninn hafi verið bent á að fara í sóttkví og skimun. „Við erum í mjög góðum samskiptum,“ segir hún um starfsmannahópinn og smitrakningarteymið.

Viðkomandi er hlutastarfsmaður hjá Krónunni og var að störfum í versluninni í Austurveri seinnipart dags miðvikudag, föstudag og laugardag.

Ásta segir smitrakningateymið ekki hafa talið ástæðu til að vara viðskiptavini sérstaklega við, þar sem ítrustu sóttvarna hefur verið gætt í verslununum. Farið sé að tillögum teymisins í einu og öllu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.