Erlent

Fjórir af milljón gætu fengið blóðtappa: Missti bróður sinn en hvetur fólk samt til að þiggja bólusetningu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Ef við fáum öll bóluefnið gætu einhver okkar fengið blóðtappa en gögnin benda til þess að færri muni deyja.“
„Ef við fáum öll bóluefnið gætu einhver okkar fengið blóðtappa en gögnin benda til þess að færri muni deyja.“

Systir manns sem lést eftir að hafa fengið sjaldgæfan blóðtappa í heila í kjölfar bólusetningar með bóluefninu frá AstraZeneca, segir hann hafa verið ótrúlega óheppinn og hvetur fólk til að þiggja bólusetningu.

Lögmaðurinn Neil Astles, 59 ára, fékk fyrri skammtinn af bóluefninu frá AstraZeneca 17. mars síðastliðinn en lést á páskadag eftir tíu daga af síversnandi höfuðverkjum og versnandi sjón.

Systir hans, Dr. Alison Astles, sem starfar við University of Huddersfield, sagði í samtali við Daily Telegraph að Neil hefði verið „ótrúlega óheppinn“ og hvatti fólk til að þiggja bóluefnið frá AstraZeneca því þannig myndu færri deyja.

Dr. Astles sagði í samtali við Radio 4 að læknar á spítalanum þar sem bróðir hennar lést væru 99,9 prósent vissir um að veikindi hans tengdust bólusetningunni, þrátt fyrir að endanlegar niðurstöður lægju ekki fyrir.

Hún sagði að sem lyfjafræðingur vissi hún hins vegar að líkurnar á því að deyja af völdum bóluefnisins væru örlitlar.

Samkvæmt nýjustu tölum bresku lyfjastofnunarinnar (MHRA) höfðu 79 tilkynningar um blóðtappa í kjölfar bólusetningar með bóluefninu frá AstraZeneca borist 31. mars síðastliðinn og þar af höfðu nítján látist.

Sama dag höfðu 20,2 milljón skammtar af bóluefninu verið gefnir á Bretlandseyjum, sem þýðir að um það bil fjórir af milljón eiga á hættu að fá blóðtappa.

„Tilfinningalega erum við algjörlega öskureið. Við þjáumst. En það er ekkert til að vera reiður yfir. Bróðir minn var bara ótrúlega óheppinn,“ segir Dr. Astles. 

„Ef við fáum öll bóluefnið gætu einhver okkar fengið blóðtappa en gögnin benda til þess að færri muni deyja. Við treystum ferlinu, við treystum eftirlitsaðilanum, og þrátt fyrir það sem hefur hent fjölskylduna okkar viljum við ekki að fólk hræðist. Það eru skilaboðin sem við viljum senda.“

Guardian greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×