Innlent

Burðardýrið játaði en meintir skipuleggjendur neita

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Efnin fundust í fórum kvennanna við komu þeirra til landsins í desember.
Efnin fundust í fórum kvennanna við komu þeirra til landsins í desember. Vísir/Vilhelm

Aðalmeðferð fer fram í dag í máli tveggja Spánverja, karls og konu á fertugsaldri, sem ákærð eru fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Þeim er gefið að sök að hafa þann 19. desember síðastliðinn staðið að innflutningi á tæplega fimm kílóum af hassi, um 5100 E-töflum og eitt hundrað stykkjum af LSD.

Konan er sögð hafa flutt efnin sem farþegi með flugi frá Amsterdam í Hollandi, með millilendingu í Stokkhólmi í Svíþjóð, og þaðan með flugi Icelandair til Keflavíkur. Efnin fundust í ferðatösku sem hún hafði meðferðis við komuna til Íslands. Karlmaðurinn er sakaður um að hafa skipulagt komu hennar með því að bóka flugið og greiða fyrir farmiðann.

Önnur kona, þriðji Spánverjinn, var einnig ákærð í málinu fyrir innflutning í málinu en um 250 grömm af metamfetamíni fundust innvortis og í dömubindum í nærfatnaði hennar. Karlmaðurinn skipulagði sömuleiðis ferð hennar, bókaði flug og greiddi fyrir farmiða. Konan játaði brot sitt við þingfestingu og var hennar mál því aðskilið hinum tveimur. Var hún dæmd í sex mánaða fangelsi fyrir brot sitt.

Hin tvö neita sök og er aðalmeðferð í máli þeirra í gangi þessa stundina í Héraðsdómi Reykjaness. Þau eru sömuleiðis sökuð um að hafa staðið að innflutningnum sem hin konan játaði. Karlmaðurinn er sagður hafa pakkað fíkniefnunum inn og fylgt henni í flugið.

Gerð er krafa um upptöku allra fíkniefnanna. Reikna má með dómi í málinu innan fjögurra vikna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×