Erlent

Flugu nýrri tegund dróna sem eiga að vinna með mönnuðum orrustuþotum

Samúel Karl Ólason skrifar
Boeing segir að allt að sextán drónar muni geta flogið með mönnuðum orrustuþotum í framtíðinni.
Boeing segir að allt að sextán drónar muni geta flogið með mönnuðum orrustuþotum í framtíðinni. Boeing

Starfsmenn Boeing flugu um helgina nýrri frumgerð dróna í fyrsta sinn. Þetta er í fyrsta sinn sem herflugvél er þróuð og framleidd í Ástralíu í meira en 50 ár.

Yfirvöld í Ástralíu vilja nota dróna sem þennan, sem eru á stærð við orrustuþotur, til að auka getu mannaðra orrustuþota. Dróninn, Loyal Wingman, er 11,6 metra langur og dregur allt að um 3.700 kílómetra.

Dróninn getur borið ýmsar tegundir skynjara og þannig væri hann að mestu nýtanlegur í að styðja við flugmenn í orrustu. Það væri þó einnig hægt að koma fyrir vopnum á drónanum og nota hann til að verja mannaðar orrustuþotur, samkvæmt frétt Reuters.

Haft er eftir Cath Roberts, einum yfirmanna flughers Ástralíu, í tilkynningu frá Boeing að flug helgarinnar sé fyrsta skrefið í þróun nýs kerfis sem samtvinni sjálfvirk kerfi og gervigreind til að búa til teymi mannaðra og ómannaðra orrustuþota.

Dróninn Lonely Wingman á flugbraut í Ástralíu um helgina.Boeing

Tilraunaflugið í Ástralíu um helgina fól í sér að dróninn tók sjálfur á loft og flaug á mismiklum hraða í mismikilli hæð. Þannig var sannað að hönnunin virkaði sem skyldi. Seinna á árinu stendur til að fljúga þemur drónum saman og reyna á getu þeirra til að vinna saman.

Boeing segir að hægt væri að fljúga allt að sextán drónum með mönnuðum orrustuþotum. Tilraunaflug með drónum og flugmönnum á samkvæmt áætlun að fara fram á næstu þremur árum.

Boeing mun einnig nota Loyal Wingman við þróun Skyborg-áætlunarinnar í Bandaríkjunum en Bandaríkin og Ástralía eru nánir bandamenn. Fyrir áramót gerði Flugher Bandaríkjanna samninga við þrjú fyrirtæki vegna þeirrar áætlunar.

Við erum Skyborg

Markmið Skyborg-áætlunarinnar er ekki að búa til nýja tegund vélmenna sem reyna að leggja undir sig alla stjörnuþokuna, eins og og nafnið gefur til kynna, heldur að búa til tiltölulega ódýra dróna sem hægt væri að nota í orrustu. Dróna sem hægt væri að nota í verkefni sem talin eru of hættuleg fyrir flugmenn.

Verkefnið gengur sömuleiðis út á að þróa dróna sem geta 

Þrjú fyrirtæki hafa unnið að frumgerðum fyrir áætlunina, þau Boeing, General Atomics Aeronautical Systems og Kratos Defense and Security Solutions.

Fyrstu tilraunaflug Skyborg eiga að fara fram í sumar.

Í samtali við Reuters segir einn yfirmanna Boeing að það sé mikilvægt fyrirtækinu að ná samningum við herafla Bandaríkjanna. Það sé markmið vinnu fyrirtækisins í Ástralíu, því markaðurinn í Bandaríkjunum sé svo stór.

Þá segir fréttaveitan að sífellt fleiri vopnaframleiðendur beini sjónum sínum að drónum, samhliða því að forsvarsmenn herafla heimsins leita leiða til að draga úr kostnaði og auka getu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.