Sport

Var búin að gera fjögur ógild köst í röð áður en hún náði risakastinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erna Sóley Gunnarsdóttir tók Íslandsmetið af Ásdísi Hjálmsdóttur í fyrra og nálgast nú sautján metrana.
Erna Sóley Gunnarsdóttir tók Íslandsmetið af Ásdísi Hjálmsdóttur í fyrra og nálgast nú sautján metrana. Instagram/@erna_soley

Íslenski kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir byrjaði tímabilið á frábæru og sögulegu kasti um síðustu helgi.

Erna Sóley kastaði kúlunni 16,95 metra og bætti þar með gamla Íslandsmetið um 76 sentímetra sem er ótrúlegt bæting. Kastinu náði hún á Conference USA innanhússmótinu í Birmingham í Alabama fylki í Bandaríkjunum.

Erna Sóley sýndi að þetta kast var engin tilviljun því hún átti tvö köst yfir gamla metinu. Öll hin köstin voru aftur á móti ógild og það var saga að segja frá því.

„Þetta var fyrsta mótið mitt í langan tíma þannig ég var nokkuð stressuð og gerði fjögur köst ógild. Síðan náði ég aðeins að róa mig niður og þá kom lengsta kastið,“ sagði Erna Sóley í spjalli við fésbókarsíðu Frjálsíþróttasambands Íslands. Hér fyrir neðan má sjá metkastið hennar.

Hún keppir fyrir Rice University í Houston í Texas fylki og ganga æfingar vel.

„Uppbyggingartímabilið er búið að ganga mjög vel og ég er búin að styrkja mig mikið. Ég lagði mikla áherslu á lyftingar og ég held að það hafi borgað sig,“ sagði Erna og hún ætlar sér enn stærri hluti á næstunni.

„Næst á dagskrá verður vonandi Indoor Nationals 11. mars. Þar verður markmiðið að kasta 17m+,“ sagði Erna Sóley í umræddu viðtali sem birtist á samfélagsmiðlum FRÍ.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.