Innlent

Grímur tekur aftur við miðlægri rannsóknardeild lögreglu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Grímur Grímsson tekur aftur við starfi yfirlögregluþjóns og þar með yfirmanns miðlægrar deildar lögreglu á höfuðborgarsvæðinu.
Grímur Grímsson tekur aftur við starfi yfirlögregluþjóns og þar með yfirmanns miðlægrar deildar lögreglu á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Stefán Óli

Grímur Grímsson, sem undanfarin þrjú ár hefur starfað sem tengiliður Íslands hjá Evrópulögreglunni í Hollandi, Europol, tekur við sem yfirmaður miðlægrar deildar lögreglu í apríl. Grímur staðfestir þetta við Mbl.is í dag.

Þann 1. apríl verða þrjú ár liðin síðan hann tók við stöðunni hjá Europol en staðan var til þriggja ára með mögulega á eins árs framlengingu. Grímur tók við starfinu af Karli Steinari Valssyni sem hafði þá verið tengiliður Íslands hjá Europol árin á undan.

Grímur og Karl Steinar höfðu í raun sætaskipti þann 1. apríl 2018 þegar Grímur fór til Hollands og Karl Steinar tók við miðlægu deildinni af Grími. Karl Steinar tók til starfa sem yfirlögregluþjónn alþjóðsviðs ríkislögreglustjóra þann 1. janúar. Síðan þá hefur Margeir Sveinsson stýrt miðlægri deild lögreglunnar.

Miðlæg rannsóknardeild embættisins er staðsett á Hverfisgötu en deildin annast meðal annars rannsóknir alvarlegra ofbeldisbrota, kynferðisbrota, meiri háttar fjármunabrota og skipulagðrar brotastarfsemi, t.d. fíkniefnabrota, mansals og vændis. Hlutverk rannsóknardeildar LRH er að sinna rannsóknum flókinna, viðamikilla sakamála þar sem m.a. getur þurft að leiða saman hóp sérfræðinga og afla gagna víða.

Deildinni er skipt í tvennt. Annars vegar er kynferðisbrotadeild og hins vegar deild sem sinnir skipulagðri brotastarfsemi og meiriháttar afbrotum. Morðið í Rauðagerði er á meðal mála sem miðlæga deildin hefur til rannsóknar þessa dagana.

Grímur segist í samtali við Mbl.is hlakka til að koma til baka og muni nýta þá þekkingu sem hann hafi aflað sér ytra. Grímur sótti um starf ríkislögreglustjóra á síðasta ári þegar Sigríður Björk Guðjónsdóttir var ráðin í stöðuna.

Grímur var valinn maður ársins af lesendum og hlustendum Vísis og Bylgjunnar árið 2017 en hann hafði þá stýrt rannsókninni á morðinu á Birnu Brjánsdóttur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.