Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti hinn 3. febrúar skýrslu starfshóps um kosti brúar og jarðgangna í tengslum við lagningu Sundabrautar frá sundahverfi í Reykjavík upp á Kjalarnes. Niðurstaðan var að brú yfir Kleppsvík frá Holtavegi yfir á Gufunes væri hagkvæmari kostur en neðansjávargöng.

Viku síðar eða hinn 11. febrúar var málið rætt í borgarráði þar sem meirihlutinn sagði samstöðu um að næsta skref fælist meðal annars í því að kanna kostina til hlítar með félagshagfræðilegri greiningu þar sem afleiddur kostnaður fyrir höfnina og nærlæg íbúahverfi komi einnig til skoðunar. En meirihlutinn vill enn skoða kostinn við göng. Jafnframt þyrfti að gera ráð fyrir samráði við íbúasamtök.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks í borgarráði tóku hins vegar nokkurn veginn undir hugmyndir um brú.

Samgönguráðherra er sannfærður um að stjórnvöld og Vegagerðin annars vegar og borgin hins vegar séu komin með sameiginlega sýn á framkvæmdina og að heildarlausnin sé komin fram.
„Við höfum valkost sem eru þá jarðgöng sem munu verða metin í umhverfismatinu. Það þarf að hafa fleiri hluti þar til samanburðar,“ segir Sigurður Ingi. Aðilar ætli að gefa sér tíma í umhverfismat, skipulagsbreytingar, forhönnun og undirbúning.

„Ef það er hægt að stytta þann tíma með því til að mynda að byrja hugsanlega á kaflanum frá Gufunesi upp á Kjalarnes væri það enn betra og áhugaverðara. Því ekki veitir okkur af að fá opinberar framkvæmdir í gang í samfélaginu,“ segir samgönguráðherra.

Varðandi verkefnið í heild þurfi að ljúka félagshagfræðilegri greiningu og fá frekari upplýsingar úr umferðarlíkansspákerfi sem sveitarfélögin og Vegagerðin séu að keyra.
„Ég er sannfærður um að brúin muni alltaf sýna yfirburði sína í samanburðinum því lengra og meira sem við skoðum það.“
Þannig að þessi hugmynd sé kannski að losna undan einhvers konar Teigsskógarálögum?
„Já, ég er að vonast til þess,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.