Innlent

Þyrftu alltaf að reyna á hjarðónæmi burtséð frá Pfizer-rannsókn

Birgir Olgeirsson skrifar

Sóttvarnalæknir segir lyfjafyrirtækið Pfizer ekki hafa gert kröfu um að landamærin verði opnuð í nafni bóluefnarannsóknar og ekki standi til að stefna heilsu þjóðarinnar í hættu. Slakað verði þó á sóttvarnaaðgerðum á landamærunum þegar bólusetningar eru langt komnar

Þrátt fyrir háværan orðróm tók sóttvarnalæknir fram að hvorki samningur né samningsdrög lægju fyrir. Hann sagði margar flökkusögur í gangi um þessar viðræður en fullvissaði fólk um að réttar upplýsingar yrðu gefnar strax og þær liggja fyrir.

Bóluefnarannsókn Íslands og Pfizer á í grófum dráttum að snúast um hversu vel bóluefni fyrirtækisins verndar heila þjóð fyrir kórónuveirunni. Sóttvarnalæknir segir ekki ljóst hvort af þessu verkefni verður né hversu marga bóluefnaskammta Íslendingar fá eða hvenær. Þrálátur orðrómur er uppi í samfélaginu að Pfizer geri kröfu um að sóttvarnaaðgerðum á landamærunum verði aflétt svo hægt verði að sjá hversu vel bóluefnið virki gegn veirunni.

Engar kröfur frá Pfizer um að „opna“

Þórólfur með fyrstu skömmtunum af Pfizer-bóluefninu sem komu til landsins í desember. Vísir

„Við höfum ekki verið í neinum samningaviðræðum um það hvernig þetta verður útfært. Það er væntanlega eitthvað sem samningsdrögin munu taka á. Ég á ekki von á einhverjum svona kröfum. En tilgangurinn með að bólusetja og bólusetja marga er að slaka á öllum aðgerðum en gera það innan þeirra marka sem teljum skynsamlegast, en ég hef ekki séð neinar kröfur um það,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Hann segir mörkin ekki grafin í stein. Þau fari eftir því hvernig álagið er á landamærin og hvernig faraldurinn þróist erlendis. „Við gætum gert ýmsar útfærslur á því hvort menn vilji hafa einfalda skimun eða tvöfalda skimun eða hvernig það nú verður. En það sem allir eru að horfa til er að fá útbreidda bólusetningu og þá getum við slakað á, og ég held að allar þjóðir séu að horfa til þess.“

Alltaf markmiðið að opnað og slakað á

Samfélagssmit er í lágmarki á Íslandi, er þá einhvern veginn hægt að framkvæma bóluefnarannsókn öðruvísi en að það sé smit á Íslandi og við fáum það ekki öðruvísi en að opna landamærin?

„Nei, hvort sem við köllum það rannsókn eða hvort við viljum bara stuðla að útbreiddri bólusetningu, þá er það alltaf markmiðið að geta opnað og slakað á þeim takmarkandi aðgerðum sem eru í gangi. Það myndi ekki vera krafa rannsóknarinnar vegna. Þetta er það sem allir eru að horfa upp og við viljum sjá á staðlaðan máta ef við slökum á hér innanlands og ef það verður slakað á á landamærunum og svo framvegis. Á einhverjum tímapunkti verður það að gerast, hvort sem okkur líkar betur eða verr.“

Komufarþegar í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Vísir/Vilhelm

Þannig að það yrði alltaf einhvern veginn að reyna á hjarðónæmið, ef þessi rannsókn á að vera?

„Að sjálfsögðu, annars myndum við bara vera lokuð alveg þangað til veiran verður útdauð í heiminum,“ svarar Þórólfur.

Ráðamenn þyrftu að samþykkja rannsókn

Þórólfur segir að ef samningar takast við Pfizer um bóluefnarannsókn hér á landi þá þyrfti málið að fara í gegnum ákveðna ferla.

„Ef þetta er gert í nafni rannsóknarinnar þá fer það náttúrlega allt í gegnum nauðsynlega ferla. Ráðamenn þjóðarinnar þurfa að samþykkja þetta. Þetta myndi fara í gegnum alla ferla hjá vísindasiðanefnd og Persónuvernd og svo framvegis.“

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þyrfti að samþykkja rannsóknina að sögn sóttvarnalæknis. Vísir/Vilhelm

Íslensk erfðagreining myndi hafa aðkomu að þessari rannsókn.

„Það er sennilega enginn hér innanlands sem gæti tekið að sér að útfæra þessa rannsókn. Þetta yrði samvinnu við íslenska aðila fleiri. En ég bendi á að þetta er ekki einhver tilraun á Íslendingum eða íslenskri þjóð, heldur erum við að gera þetta á staðlaðan máta þar sem við erum að setja upp rannsóknarspurningar. Hvort sem þetta heitir rannsókn eða ekki rannsókn, þá myndum við alltaf vilja bólusetja sem flesta á Íslandi. Það myndi bara taka miklu lengri tíma og það yrði erfiðara að fylgjast með árangri bólusetningarinnar.“

Vilja bólusetja hraðar

En nú er staðan mjög góð á Íslandi og við höfum samið um bóluefni sem við fáum næstu mánuði. Er þörf á því að skuldbinda sig við fyrirtæki um rannsókn til að bólusetja þjóðina fyrr?

„Eins og staðan er núna þá er útlit fyrir að við munum geta bólusett 30 þúsund manns fyrir lok mars. Það er ekkert voðalega stór hluti af íslenskri þjóð. Við viljum helst geta bólusett hraðar og líka til að svara þessum spurningum. Ef þetta gengur með þessum hraða áfram, þá verður erfitt að svara þessum rannsóknar spurningum sem ég held að sé nauðsynlegt að svara á einn eða annan hátt.“

Rannsóknin ógni ekki heilsu þjóðar

Telur þú að þessi rannsókn muni ógna heilsu íslenskrar þjóðar?

„Nei, það held ég ekki. Þvert á móti. Ég held að hún geti verið mjög hjálpleg. Í fyrsta lagi hafa þessi bóluefni, þar á meðal Pfizer, sýnt að þau eru mjög örugg. Og ég held að við og þær upplýsingar sem við fáum úr svona rannsókn munu verða mjög hjálplegar. Ekki bara fyrir okkur heldur aðrar þjóðir líka. Þetta er ekki tilraun á þjóðinni. Eftir sem áður munum við hvetja alla til að mæta í bólusetningu, þó það tæki langt fram á þetta ár. Það breytir engu, við myndum vilja bólusetja jafn marga eftir sem áður.“

Og þið mynduð alltaf fara varlega í afléttingar á landamærunum ef þið fengjuð alla þessa skammta frá Pfizer?

„Já við myndum gera það varlega í það og gera það á okkar forsendum eftir sem áður.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×