Sport

Fyrstar kvenna til að vinna Super Bowl

Sindri Sverrisson skrifar
Lori Locust er í níu manna varnarþjálfarateymi Tampa Bay Buccaneers.
Lori Locust er í níu manna varnarþjálfarateymi Tampa Bay Buccaneers. Getty/Mary Holt

Tvær konur áttu sinn þátt í því að gera Tamba Bay Buccaneers að Ofurskálarmeisturum í nótt þegar liðið vann sigur á Kansas City Chiefs, 31-9.

Þær Lori Locust og Maral Javadifar eru báðar í þjálfarateymi Tamba Bay og þar með fyrstar kvenna til að þjálfa hjá sigurliði í Super Bowl. Í fyrra varð Katie Sowers, aðstoðarsóknarþjálfari hjá San Francisco 49ers, fyrst kvenna til að þjálfa hjá liði sem spilar í Super Bowl en þar tapaði liðið fyrir Kansas City Chiefs.

Locust er aðstoðarvarnarlínuþjálfari hjá Tamba Bay og leiðbeinir sem slík vörninni sem gekk svo vel að ráðast á Patrick Mahomes í nótt. Javadifar er aðstoðarþrekþjálfari. Báðar voru þær að klára sitt annað tímabil hjá félaginu.

Locust er 56 ára og var áður lærlingur hjá Baltimore Ravens og hefur þjálfað í lægra skrifuðum deildum. Javadifar var sjálf körfuboltakona í háskóla en er með doktorsgráðu í sjúkraþjálfun.

Locust og Javadifar voru ekki einu konurnar með penna á lofti, að skrá nýjan kafla í sögu NFL í nótt. Sarah Thomas varð nefnilega fyrsta konan til að dæma í Super Bowl en hún byrjaði að dæma í NFL, fyrst kvenna, árið 2015 og hefur verið í fullu starfi þar síðan.

Bruce Arians, aðalþjálfari Tampa Bay, var þjálfari Arizona Cardinals árið 2015 þegar hann réði Jen Welter sem lærling en hún varð þá fyrsta konan til að fá þjálfarastarf af einhverju tagi í NFL. Arians, sem er 68 ára, er á sínu öðru ári hjá Tampa Bay og varð í nótt elsti aðalþjálfarinn til að vinna Super Bowl.


Tengdar fréttir

Brady fagnaði með dóttur sinni eins og síðast: Er ekki hættur

Tom Brady tilkynnti það á verðlaunapallinum í nótt að hann ætli að spila áfram með Tampa Bay Buccaneers liðinu á næstu leiktíð. Brady heldur upp á 44 ára afmælið sitt í haust og varð í nótt NFL-meistari í sjöunda skiptið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.