Enski boltinn

Martinez þögull um framtíðina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roberto Martinez vildi lítið segja um hvort hann yrði áfram hjá Wigan en liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni í gær.

Martinez hefur náð góðum árangri með Wigan í gegnum tíðina og gerði liðið til að mynda að enskum bikarmeistara um helgina.

En hann er eftirsóttur víða og hefur til að mynda verið sterklega orðaður við Everton, sem er að leita að nýjum stjóra í stað David Moyes.

„Við erum svo rétt nýbúnir að falla að ég hef ekki haft tíma til að hugleiða framtíðina,“ sagði Martinez eftir 4-1 tap Wigan fyrir Arsenal í gær.

„Það er afar sorglegt að labba inn í búningsklefann eftir svona leik. Málin verða svo gerð upp í sumar og þá verður sem vill.“

Dave Whelan, eigandi og stjórnarformaður Wigan, telur að Martinez verði áfram. „Við ætlum okkur að fara beint aftur upp. Roberto veit hvað mér finnst um hann og ég veit hvernig honum líður. Hann er sannkallaður heiðursmaður og trúr sínum.“

Whelan segist þó ekki ætla að standa í vegi fyrir Martinez óski hann þess að leita á önnur mið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×