Innlent

Mikil andstaða við sölu áfengis í verslunum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Stór hluti Íslendinga er andvígur því að sala áfengis verði leyfð í matvöruverslunum á Íslandi, samkvæmt nýrri könnun MMR. Fleiri eru mótfallnir sölu á sterku áfengi, eða 74,3 prósent, og þá segjast 56,9 prósent á móti sölu á léttu áfengi og bjór.

Alls 15,4 prósent kváðust hlynnt sölu á sterku áfengi en 32 prósent hlynnt sölu á léttu áfengi og bjór.

Konur voru almennt líklegri en karlar til að vera á móti sölu áfengis, hvort sem um var að ræða sölu á léttu áfengi eða sterku. Þannig kváðust 70 prósent kvenna mjög andvígar sölu sterks áfengis og 58 prósent karla. 5 prósent kvenna voru hlynntar sölunni og 14 prósent karla.

Þá sögðust 50 prósent kvenna mjög andvígar sölu á léttu áfengi en 43 prósent karla. 28 prósent karla sögðust mjög hlynntir sölu áfengis í verslunum en 13 prósent kvenna.

Af fólki á aldrinum 18-29 ára sögðust 42 prósent andvíg sölu létts áfengis og bjórs í matvöruverslunum en 43 prósent hlynnt. Andstaðan jókst með hækkandi aldri.

Stuðningsmenn Viðreisnar reyndust líklegastir til að vera hlynntir sölu létts áfengis og bjórs, eða 58 prósent. Af stuðningsmönnum Bjartrar framtíðar voru 49 prósent hlynntir og 48 prósent stuðningsmanna Pírata. 19 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna kváðust hlynntir sölu á léttu áfengi og bjór í matvöruverslunum.

Könnunin var gerð dagana 10. til 15. febrúar og var heildarfjöldi svarenda 908 einstaklingar, 18 ára og eldri.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.