Fótbolti

Capello sagður sjá eftir að hafa ekki gefið leikmönnum frí

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello.
Fabio Capello. Nordic Photos / Getty Images
Fabio Capello, landliðsþjálfari Englands, sér eftir því að hafa ekki gefið leikmönnum frí eftir langt tímabil í ensku úrvalsdeildinni nú í vor, áður en undirbúningur fyrir HM í Suður-Afríku hófst.

Englandi gekk illa í Suður-Afríku og féll úr leik í 16-liða úrslitum eftir 4-1 tap fyrir Þýskalandi. England vann aðeins einn leik í keppninni en það var 1-0 sigur á Slóveníu.

Samkvæmt heimildum götublaðsins The Sun telur Capello að hann hefði átt að sleppa tveggja vikna æfingaferð sem liðið fór í til Austurríkis skömmu fyrir mót og að leikmenn hefðu átt að fá tækifæri til að hvíla sig fyrir átökin á HM.

Þetta hefur The Sun eftir „nánum vini" Capello sem segir að sá ítalski hefði verið staðráðinn í að ná góðum árangri í Suður-Afríku og því hafi hann lagt ríka áherslu á góðan undirbúning.

Þegar æfingar hófust hins vegar hafi hann séð að leikmenn voru algjörlega búnir á því eftir langt og strangt tímabil í ensku úrvalsdeildinni. Þá hafi hins vegar orðið of seint að breyta öllu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×