Carolina Panthers er eina ósigraða liðið í NFL-deildinni eftir að New England Patriots tapaði gegn Denver Broncos í framlengdum leik í nótt. Tíu leikja sigurgöngu meistaranna er þar með lokið.
Það var enginn Peyton Manning í liði Broncos í nótt enda meiddur. Ekkert varð því af uppgjöri Manning og Tom Brady, leikstjórnanda Patriots, sem margir höfðu beðið spenntir eftir.
Brock Osweiler leysti Manning af hólmi í sínum öðrum leik á ferlinum og hann stóð sig vel.
Patriots byrjaði betur í nótt og komst í 14-0. Denver gafst ekki upp og komst yfir í fyrsta skipti í stöðunni 24-21 er rúm mínúta var eftir. Brady náði að koma Patriots í vallarmarksstöðu í kjölfarið og því varð að framlengja leikinn.
C.J. Anderson skoraði sigursnertimarkið þar með 48 jarda hlaupi. Broncos er því búið að vinna níu leiki en tapa tveimur.
Patriots hefur verið að missa lykilmenn í síðustu leikjum og enn einn lykilmaðurinn meiddist í nótt en að þessu sinni meiddist innherjinn öflugi, Rob Gronkowski.
Úrslit:
Denver-New England 30-24
Seattle-Pittsburgh 39-30
San Francisco-Arizona 13-19
Washington-NY Giants 20-14
Tennessee-Oakland 21-24
NY Jets-Miami 38-20
Kansas City-Buffalo 30-22
Jacksonville-San Diego 25-31
Indianapolis-Tampa Bay 25-12
Houston-New Orleans 24-6
Cincinnati-St. Louis 31-7
Atlanta-Minnesota 10-20
Staðan í NFL-deildinni.
Broncos stöðvaði sigurgöngu Tom Brady og félaga
