Innlent

Morgublaðið brýtur eigin reglu

Morgunblaðið telur það brot á lögum að birta tölvupóstssamskipti einstaklinga. Við því séu viðurlög og þung refsing. Morgunblaðið hefur að minnsta kosti tvívegis birt tölvupóst einstaklinga án þeirra samþykkis og hefur því að eigin mati gerst brotlegt gegn lögum því einkatölvupóstur Össurar Skarphéðinssonar og Gunnlaugs Sigmundssonar hafa birst án þeirra samþykkis á síðum Morgunblaðsins. Í ritstjórnargrein Morgunblaðsins í gær segir: "Atli Gíslason, hæstaréttarlögmaður og lögfræðingur Blaðamannafélags Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að birting á tölvupóstum án heimildar væri brot gegn almennum hegningarlögum og mannréttindakafla stjórnarskrár." Niðurlag ritstjórnargreinarinnar er: "Stuldur á tölvupóstum er lögbrot og viðurlög eru þung refsing. Birting Fréttablaðsins á tölvupóstssamskiptum nokkurra einstaklinga er lögbrot og viðurlög eru þung refsing. Að auki heldur Atli Gíslason því fram, að sú birting sé einnig brot á mannréttindakafla stjórnarskrár." Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins sagði á starfsmannafundi á Morgunblaðinu í vikunni um ástæðuna fyrir því að hann hefði ekki birt fréttir um Baugsmálið byggðar á gögnum Jóns Geralds Sullenberger: "Ég vildi ekki birta neitt af þessu því þetta voru innanhússskjöl frá fyrirtæki úti í bæ og mér fannst þetta mál ekki eiga heima á síðum dagblaðanna heldur hjá lögfræðingi." Morgunblaðið birti hins vegar bréfaskipti Norðurljósa og Landsbankans vegna fjárhagsstöðu Norðurljósa og lánamála félagsins, fáeinum mánuðum síðar. Sigurður G. Guðjónsson, þáverandi forstjóri Norðurljósa segist hafa gefið leyfi fyrir birtingu bréfanna, en að sögn Brynjólfs Helgasonar, sem annar tveggja ritaði undir bréf Landsbankans, gaf Landsbankinn ekki leyfi fyrir birtingunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×