Innlent

Forsvarsmenn skipasmíðastöðvarinnar vilja leita sátta en þó reiðubúnir að selja nýja Herjólf

Birgir Olgeirsson skrifar
Herjólfur í Póllandi.
Herjólfur í Póllandi. Vegagerðin
Forsvarsmenn pólsku skipasmíðastöðvarinnar sem sér um smíði nýs Herjólfs segjast viljugir til að leita sátta við stjórnendur Vegagerðarinnar.

Skipasmíðastöðin Crist S.A. krafðist í lok febrúar viðbótargreiðslu upp á rúmlega milljarð króna sem nemur um þriðjungi af smíðaverði Herjólfs. Vegagerðin telur enga stoð í samningi aðila varðandi þessa kröfu og enga leið að verða við henni.

Vegagerðin innkallaði í síðustu viku bankaábyrgðir hjá bankanum sem gefið hefur út ábyrgðir fyrir Crist S.A. Ástæðan var sú að allt stefndi í að ábyrgðin félli úr gildi áður en viðeigandi skjöl til staðfestingar framlengingu ábyrgðanna bærust Vegagerðinni.

Á vefnum Eyjar.net er rætt við lögmann skipasmíðastöðvarinnar, Marek Czerin, segir að ef Vegagerðin borgi uppsett verð verði ferjan afhent tafarlaust. Í framhaldinu hefur Vegagerðin rétt til að vísa málinu til gerðardóms líkt og kveðið er á um í samningnum.

Lögmaðurinn og stjórnarformaður stöðvarinnar, Krzysztof Kulczycki, fullyrða báðir að ef til komi að bankinn endurgreiði Vegagerðinni trygginguna sem lögð var fram af hálfu Vegagerðarinnar, þá muni skipasmíðastöðin og bankinn hafa fulla heimild til að selja nýja Herjólf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×