Innlent

Mölbrutu rúðu ritstjórans og stálu útivistarbúnaði

Jakob Bjarnar skrifar
Reynir kom af fjöllum í orðsins fyllstu, Fjallinu eina nánar tiltekið og var aðkoman ömurleg.
Reynir kom af fjöllum í orðsins fyllstu, Fjallinu eina nánar tiltekið og var aðkoman ömurleg. Visir/Vilhelm/Reynir

Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að brotist var inn í bíl hans í gærmorgun. Hliðarrúða hafði verið brotin og flest hreinsað úr bílnum.

Reynir auglýsir eftir bláum bakpoka, Scharpa skóm nr. 43, áttavita og sjósundsgræjum.

„Ég er að leita þjófanna. Allt hirt sem var í bílnum nema þeir stálu hleðslutæki og snúru GPS en gleymdu tækinu,“ segir Reynir sem hefur þetta til marks um að þjófarnir stígi ekki í vitið.

Ömurleg aðkoma. Búið var að brjóta hliðarrúðuna og hafði glerbrotum rignt inn um allan bíl. Snúra GPS-tækis horfin en tækið ekki.Reynir

Þetta var í gærmorgun. Bíll Reynis, að gerðinni Ford Kuga, stóð skammt við Kleifarvatn. Reynir var á Fjallinu eina, hann kom sem sagt af fjöllum í orðsins fyllstu merkingu og aðkoman ömurleg.

„Mjög dapurleg. Ég hef aldrei lent í slíku fyrr þrátt fyrir endalausan þvæling,“ segir Reynir í samtali við Vísi.

Reynir þurfti ekki að hafa fyrir því að setja sig í samband við lögregluna því hún var á undan honum á vettvang glæpsins, en að sögn ritstjórans er Hafnarfjarðarlöggan með málið.

Reynir var við Fjallið eina þegar vandalistarnir komu að bíl hans.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×