Sport

Svindlarar komast á ÓL í Tókýó

Sindri Sverrisson skrifar
Ólympíuleikunum var frestað til sumarsins 2021.
Ólympíuleikunum var frestað til sumarsins 2021. VÍSIR/EPA

Það að Ólympíuleikunum í Tókýó hafi verið frestað um eitt ár vegna kórónuveirufaraldursins þýðir að svindlurum sem sitja af sér bann fyrir ólöglega lyfjanotkun gefst kostur á að keppa á leikunum.

Tekin var ákvörðun um það í síðasta mánuði að fresta leikunum og eiga þeir að hefjast í júlí árið 2021. Refsingar Alþjóða lyfjaeftirlitsins, WADA, taka mið af því að fjögur ár eru vanalega á milli Ólympíuleika og ekki er hægt að lengja þau eftir á vegna frestunar leikanna í þetta eina sinn.

„Stöðluð refsing hjá WADA fyrir ólöglega lyfjanotkun er fjögurra ára bann,“ segir Brett Clothier sem er yfir Athletics Integrity Unit, nefnd Alþjóða frjálsíþróttasambandsins sem berst gegn ólöglegri lyfjanotkun.

„Þessar refsingar hafa verið hannaðar með ólympíuhringrásina í huga. Í þessu tilfelli er um frávik að ræða og sumt íþróttafólk mun hagnast á því. Þetta er óheppileg staða en þetta er mjög skýrt út frá lagalegum forsendum. Bönnin eru miðuð við tíma en ekki ákveðna atburði,“ sagði Clothier.

Clothier bendir á að frestun Ólympíuleikanna þýði líka að þeir sem falla á lyfjaprófi eftir ágúst á þessu ári muni missa af tvennum Ólympíuleikum, í Tókýó og í París árið 2024. Hins vegar geri reglur sem nú gilda í flestum löndum, um að halda fjarlægð frá fólki, það að verkum að afar erfitt sé að sinna lyfjaeftirliti.

„Þær reglur sem hafa verið settar í mörgum löndum hafa gríðarlega alvarleg áhrif á lyfjapróf í heiminum. Við framkvæmum próf fyrir yfir 100 lönd og reglurnar eru ólíkar í hverju landi fyrir sig, og þær breytast dag frá degi eða viku frá viku. Við erum enn að framkvæma próf en það hafa verið alvarlegar truflanir, ekki spurning,“ sagði Clothier.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.