Sport

Öryggisverðir Liverpool bjóðast til að vinna sem sjálfboðaliðar í matvöruverslunum og hjálpa eldra fólki

Anton Ingi Leifsson skrifar
Þessir tveir herramenn eru mögulega á leið að hjálpa eldra fólki á meðan ástandið í heiminum er svona.
Þessir tveir herramenn eru mögulega á leið að hjálpa eldra fólki á meðan ástandið í heiminum er svona. vísir/getty

Öryggisverðir Liverpool héldu að þeir væru að fara vinna á leikjum liðsins í mars og apríl og mögulega sjá til þess að allt væri með kyrrum kjörum er Englandsmeistaratitillinn færi á loft en svo verður ekki.

Enski boltinn er kominn í frí vegna kórónuveirunnar eins og áður hefur verið greint frá en fyrstu leikirnir eftir hléið eiga fara fram 3. apríl. Óvíst er þó að sú dagsetning gangi eftir.

Nú hafa verðirnir brugðið á það ráð að bjóða fram þjónustu sína í verslunarkjörnum bæjarins og hjálpa þar til. það er Peter Moore, framkvæmdarstjóri félagsins, sem greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni.

Þar segir Moore frá því að verslunareigendur á Merseyside-svæðinu ættu að hafa samband við hann í gegnum Twitter ef þeim vantaði aðstoð. Hann kallaði gæsluna þá bestu í heiminum.

Moore sagði frá því að þeir væru tilbúnir að hjálpa til við að takmarka hversu margir gætu verið inn í búðunum en einnig hjálpa til að mynda eldra fólki við að fara með pokana út í bíl fyrir þau.

Margir hafa stigið fram á þessum erfiðum tímum úr knattspyrnuheiminum og boðið fram þjónustu sína en Paul Pogba gaf meðal annars myndarlega upphæð til góðgerðamála á dögunum. Einnig hafa mörg félög tekið í sama streng.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×