Menning

Á­skor­enda­mótið í skák: Veiran stöðvar ekki sterkasta skák­mót ársins

Hrafn Jökulsson skrifar
Mikið um dýrðir og mikil eftirvænting í lofti í gær á opnunarhátíð Áskorendamótsins. Sjálfur Karopv lék fyrsta leikinn í viðureign þeirra Giri og Nepos.
Mikið um dýrðir og mikil eftirvænting í lofti í gær á opnunarhátíð Áskorendamótsins. Sjálfur Karopv lék fyrsta leikinn í viðureign þeirra Giri og Nepos.

Skyndilega lifum við í heimi án fótbolta og formúlu. Íþróttafréttamenn segja okkur ekki lengur af úrslitum, heldur viðburðum sem búið er að fresta eða aflýsa. Ekkert blak, enginn handbolti, ekkert sund – ekkert bridge í Síðumúla, golan leikur sér ein á golfvöllunum og þögnin grúfir yfir Anfield… En austur í Yekaterinburg, eða Katrínarborg sem væri réttnefni á íslensku, hófst á þriðjudag sjálft Áskorendamótið í skák. Þangað eru mættir átta af snjöllustu meisturum okkar daga, okkar sérkennilegu daga…

Sigurvegarinn teflir við Magnus Carlsen um sjálfan heimsmeistaratitilinn í haust. Carlsen náði krúnunni af Anand 2013 og hefur síðan varið titilinn þrisvar sinnum – gegn Anand, Karjakin og Caruana – og er nú ríkjandi heimsmeistari í kappskák, atskák og hraðskák. En okkar ágæti norski frændi er ekki ósigrandi – meira um það síðar.

Ding og Giri tapa óvænt

Meistararnir átta í Katrínarborg tefla tvöfalda umferð, alls fjórtán. Áskorendamótin eru sannkölluð gróðarstía jafntefla, þótt nú gildi sú regla að ekki megi semja fyrir 40. leik. Á áskorendamótinu í Berlín 2018 gerði hollenski sjarmörinn Anish Giri jafntefli í öllum skákunum fjórtán, Kínverjinn Ding Liren var þó ögn sókndjarfari; vann eina og gerði „bara“ þrettán jafntefli.

Hvorugur tapaði sem sagt skák í Berlín fyrir tveimur árum, og því skemmtileg tilviljun að báðir steinlágu með hvítu í fyrstu umferð í Katrínarborg. Giri lenti í klónum á Rússanum Ian Nepomniachtchi og Ding Liren tapaði fyrir landa sínum, Wang Hao.

Sigur Wang er mjög athyglisverður. Í 15 viðureignum hafði hann aðeins sigrað Ding Liren tvisvar, tapað sex skákum og gert sjö jafntefli.

Ding var álitinn líklegri til afreka, enda í þriðja sæti heimslistans á eftir Carlsen og Caruana. En Wang, sem er fæddur 4. ágúst 1989, hefur löngu sýnt styrkleika sinn. Skor hans gegn Caruana er með ólíkindum: Wang hefur unnið 5 skákir, engri tapað og fjórum hefur lokið með jafntefli. Hann hefur líka 3-1 skor gegn Giri, svo við skulum fylgjast vel með kínverska ljóninu.

Sigur Ian Nepomniachtchi á Anish Giri er beinlínis kærkominn, líka fyrir aðdáendur hins háttvísa og fjölhæfa snillings, sem ættaður er frá Rússlandi og Nepal, en teflir undir fána Hollands. Nú verður hann að þurrka af sér filmstjörnubrosið um hríð og bíta í skjaldarrendur.

Wang Hao vann glæsilegan sigur í fyrstu umferð og er til alls líklegur.

Giri virðist haldinn einbeittum brotavilja þegar jafntefli eiga í hlut. Dæmi. Hann hefur teft samtals 137 kappskákir gegn Carlsen heimsmeistara og hinum áskorendunum sjö, Caruana, Ding Liren, Wang Hao, Grischuk, Nepomniachtchi, Vachier-Lagrave og Alekseenko.

Giri hefur unnið 15 af þessum skákum, tapað 18 og gert 104 jafntefli. Geðþekka jafnteflisvélin hefur þó húmor, samanber færsluna: „Vann eina skák í röð!“

Ian Nepomniachtchi sýndi með taflmennsku sinni að hann getur á góðum degi skellt nákvæmlega hverjum sem er. Enginn veit það betur en Magnus Carlsen. Rússinn sókndjarfi, fæddur 1990, hefur einstakt skor gegn heimsmeistaranum, hefur unnið fjórar skákir, tapað einni og gert sex jafntefli.

Flestir veðja á Fabiano

Í öðrum skákum 1. umferðar gerðu Frakkinn Vachier-Lagrave og Bandaríkjamaðurinn Caruana jafntefli, sömuleiðis Rússarnir Grischuk og Alekseenko.

Flestir veðja á að Fabiano Caruana endurtaki leikinn frá því í Berlín 2018. Þá tryggði hann sér heimsmeistaraeinvígi við Carlsen – þeir gerðu jafntefli í 14 kappskákum, en Carlsen tryggði sér sigur í atskákum.

Caruana er „langnæstbestur“ í heiminum, þegar litið er á skákstig og hann vann frábæran sigur á Tata Steel stórmótinu í Hollandi í janúar. Sérfróðir þykjast greina nokkra breytingu á skákstíl hins ítalskættaða meistara þessi misserin, og sjálfur kveðst hann leyfa sér ívið meiri ævintýramennsku en áður.

Rússinn Nepomniachtchi horfir makindalega á Anish Giri engjast.

Andstæðingur Caruana í 1. umferð, Maxime Vachier-Lagrave, kallaður MVL, er franskur, fæddur 1990. Hann varð barnungur stórmeistari og hefur langa hríð verið í tölu svokallaðra „ofurstórmeistara“ en það eru þeir sem hafa 2700 skákstig eða meira. (Hér er listi, uppfærður daglega, yfir meistara með 2700 stig: https://2700chess.com/)

MVL teflir nú í fyrsta sinn á áskorendamóti, og fékk sætið góða þegar Azerinn Radjabov gaf frá sér keppnisrétt.

Ballið er rétt að byrja

Aðeins um Rússana tvo. Grischuk er gamall í hettunni, aldursforseti í Katrínarborg, 37 ára. Hann tefldi á hinu mikla áskorendamóti í London 2013 þegar Carlsen tryggði sér réttinn til að skora á Anand og aftur var sporðdrekinn frá Moskvu með í Berlín fyrir tveimur árum. Grischuk situr nú í 5. sæti stigalistans, en litlar líkur teljast á sigri hans þar eystra.

Andstæðingur Grischuks í fyrstu umferð er nafn sem fæstir kannast við: Kirill Alekseenko, 22 ára, fæddur í Pétursborg. Hann er langstigalægstur, aðeins með 2698 stig, og skortir því tvö stig til að teljast alvöru ofurstórmeistari. Alekseenko er sá eini sem ekki vann sér keppnisrétt á áskorendamótinu. Rússnesku keppnishaldarnar fengu að tilnefna einn keppanda. Alekseenko varð fyrir valinu, flestum að óvörum.

Hann hefur aldrei teflt á ofurskákmóti og byrjar þannig í hyldjúpu lauginni. Hann hefur aldrei teflt við Caruana eða Wang Hao, ekki einu sinni við landa sinn Nepomniachtchi. Hann er í senn óskrifað blað og skyldupunktur. Alekseenko gerði vel í að ná jafntefli gegn Grischuk í fyrstu umferðinni. Ugglaust hristir það aðeins úr honum glímuskjálftann.

En ballið þar austur í Katrínarborg er rétt að hefjast. Næstu vikurnar munu meistarnir átta grúfa sig yfir reitina 64 og leita að rétta leiknum, hvernig sem veröldin veltist…

Í 2. umferð mætast:

Caruana – Alekseenko

 Nepomniachtchi - Grischuk 

Wang Hao - Giri 

Vachier Lagrave – Ding Liren

Hrafn Jökulsson.

Áskorendamótið í skák hófst í gær. Hvenær ef ekki nú, á tímum kórónaveiru, er ástæða til að lyfta andanum og fylgjast með hinni göfugu andans íþrótt skák? Vísir ætlar í það minnsta að hafa augun hjá sér og fékk Hrafn Jökulsson sérstaklega til skoða mótið. Hrafn er forseti skákfélagsins Hróksins, hefur fylgst með skákinni áratugum saman og það sem meira er, hann kann ekki síður að halda um penna en stýra svörtu og hvítu mönnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×