Sport

HM í pílu aftur í beinni og áhorfendur verða leyfðir í Alexöndru höllinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hin litríki Peter Wright fagnar hér heimsmeistaratitlinum sínum í fyrra.
Hin litríki Peter Wright fagnar hér heimsmeistaratitlinum sínum í fyrra. AP/Alex Davidson

Röddin og bestu pílukastarar heims frá aftur sviðsljósið hjá Stöð 2 Sport í jólamánuðinum.

Heimsmeistaramótið í pílukasti er árlegur viðburður í hátíðarmánuðinum og líkt og í fyrra þá verður mótið í beinni á sportstöðvum Stöðvar tvö.

HM í pílu hefst 15. desember næstkomandi og mun ljúka með úrslitaleik sem fer fram 3. janúar á nýju ári. Allir keppnishlutar verða sýndir beint á Stöð 2 Sport 3 og alls erum við að tala um 114 klukkutíma af heimsklassa pílukasti.

Alls verða 28 keppnishlutar á sextán keppnisdögum á þessu tímabili en ekki verður keppt 24., 25., 26. og 31. desember.

Páll Sævar Guðjónsson, sem margir þekkja undir gælunafninu Röddin, er okkar mesti sérfræðingur í pílukasti og hann mun lýsa því sem fram fer á heimsmeistaramótinu alveg eins og í fyrra.

Keppnin fer að venju fram í Alexöndru höllinni í London og áhorfendur verða leyfðir á kvöldunum. Kórónuveiran hefur sett mikinn svip á allt íþróttastarf í heiminum en Englendingar byrja aftur að hleypa áhorfendum inn á íþróttaviðburði í desember.

Það verður ekki eins troðið og oft áður í Alexöndru höllinni en það má engu að síður búast við mikilli stemmningu sem setur alltaf mikinn svið á keppnina.

96 keppendur munu taka þátt í heimsmeistaramótinu í ár en þeir 32 bestu á heimslistanum koma ekki inn í keppnina fyrr en í annarri umferðinni.

Í fyrstu umferðinni munu 32 pílukastarar úr atvinnumannaröðinni keppa við 32 alþjóðlega keppendur.

Heimsmeistaramótið í fyrra var mikil skemmtun og vakti mikla athygli á íþróttinni bæði hér á landi sem og erlendis. Peter Wright varð þá heimsmeistari í fyrsta sinn eftir sigur á Michael van Gerwen, margföldum heimsmeistara, í úrslitaleiknum.

Fallon Sherrock sló líka í gegn en hún varð fyrsta konan til að vinna leik á HM í pílu. Fallon vann bæði Ted Evetts og Mensur Suljovic á mótinu í fyrra.


HM í pílukasti er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. HM í pílukasti er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×