Erlent

Segja lendinguna á tunglinu hafa heppnast

Samúel Karl Ólason skrifar
Chang'e 5 var skotið á loft á miðvikudaginn.
Chang'e 5 var skotið á loft á miðvikudaginn. AP/Mark Schiefelbein

Yfirvöld í Kína segja að lending kínversks geimfars á tunglinu hafi heppnast. Geimfarið, sem kallast Chang'e 5, á að safna mánasteinum og flytja þá aftur til jarðarinnar.

Þetta er í þriðja sinn sem Kína lendir fari á yfirborði tunglsins. Chang'e 5 var skotið á loft á miðvikudaginn með Long March 5 eldflaug.

Farið á að sækja tvö til fjögur kíló af bergsýnum í Stormhafinu. Sá hluti Stormhafsins sem farið lenti á hefur aldrei verið heimsóttur áður.

Bergsýnin eiga að gefa vísindamönnum betri hugmynd um hvernig tunglið myndaðist og þróaðist, hversu lengi það var jarðfræðilega virkt og hvenær segulsvið þess fjaraði út.

Sjá einnig: Kínverjar ætla sér að sækja mánasteina

Á næstu dögum stendur til að nota vélarm á geimfarinu til að grafa upp bergsýnin og verður þeim komið fyrir í geymslu á geimfarinu sjálfu. Það situr í raun á eldflaug sem á svo að skjóta því á loft í annað sinn.

Annar hluti geimfarsins bíður svo á braut um tunglið og eiga þau að tengjast og setja stefnuna aftur til jarðar.

Takist verkefnið verður Kína þriðja ríkið til að flytja mánasteina til jarðarinnar, á eftir Bandaríkjunum og Sovétríkjunum.

Ekki liggur fyrir hvenær til stendur að lenda Chang'e 5 aftur en það gæti verið um miðjan mánuðinn.

Chang'e 5 er ekki eina geimfarið sem mun mögulega flytja sýni frá öðrum hnetti til jarðarinnar í þessum mánuði. Vísindamenn Geimvísindastofnunar Japan stefna að því að lenda geimfarinu Hayabusa2 um helgina.

Það geimfar hefur verið á ferðinni frá 2014. Í apríl í fyrra var það notað til að varpa sprengju á smástirnið Ryugu svo hægt væri að safna sýnum.

Markmiðið er að varpa ljósi á uppruna vatns og lífs á jörðinni og veita vísindamönnum aukinn skilning á uppruna sólkerfisins. Ryugu er talið vera um 4,6 milljarða ára gamalt og mun það vera að mestu úr kolefni. Talið er að þar megi einnig finna vatn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.