Fótbolti

Elísabet hlaut einnig heiðursverðlaun

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir hefur þjálfað Kristianstad um langt árabil.
Elísabet Gunnarsdóttir hefur þjálfað Kristianstad um langt árabil. mynd/@kristianstadsdff

Elísabet Gunnarsdóttir kom, sá og sigraði á lokahófi Damallsvenskan, sænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í kvöld. 

Eins og greint var frá fyrr í kvöld var hún valin þjálfari ársins. Lið hennar, Kristianstad, hafnaði í 3.sæti deildarinnar og tryggði sér þar með keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Í lok kvöldsins fékk hún svo sérstök heiðursverðlaun Sportbladet, sem er íþróttaarmur sænska fjölmiðilsins Aftonbladet.

Elísabet er í miklum metum í sænskri kvennaknattspyrnu enda hefur hún þjálfað lið Kristianstad frá árinu 2009. Fékk hún heiðursverðlaunin fyrir sitt framlag til sænsks kvennafótbolta en verðlaunin hafa ekki verið veitt áður.

Mikil hefð er fyrir lokahófi sænsku deildarinnar þar sem öllu jafna er boðið til glæsilegs galakvöldverðar en vegna kórónuveirufaraldursins fór athöfnin að mestu fram rafrænt. Búið var að útbúa metnaðarfullt myndband þegar heiðursverðlaunin voru veitt þar sem Margrét Lára Viðarsdóttir var á meðal viðmælenda sem sendu kveðju til Elísabetar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×