Erlent

Utan­ríkis­ráð­herra í for­dæma­lausri heim­sókn í land­töku­byggðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Vel fór á með Pompeo (t.v.) og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í dag. Náin bönd hafa verið á milli stjórnar Trump og Netanjahú. Tilkynning Trump um að hann viðurkenndi yfirráð Ísraela yfir Gólanhæðum í fyrra var af mörgum talin innlegg í kosningabaráttu ísraelska forsætisráðherrans.
Vel fór á með Pompeo (t.v.) og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í dag. Náin bönd hafa verið á milli stjórnar Trump og Netanjahú. Tilkynning Trump um að hann viðurkenndi yfirráð Ísraela yfir Gólanhæðum í fyrra var af mörgum talin innlegg í kosningabaráttu ísraelska forsætisráðherrans. AP/Maya Alleruzzo

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varð í dag fyrsti hátt setti bandaríski embættismaðurinn til þess að heimsækja landtökubyggðir gyðinga á Vesturbakkanum. Meirihluti alþjóðasamfélagsins telur landtökubyggðirnar stríða gegn alþjóðalögum.

Heimsóknina til Ísraels hefur Pompeo meðal annars notað til þess að kynna að bandaríska utanríkisráðuneytið ætli að lýsa hreyfingu sem berst fyrir sniðgöngu og refsiaðgerðum gegn Ísrael vegna meðferðar ríkisins á Palestínumönnum sem „andgyðinglega“. Samtök sem taka þátt í slíkri baráttu fá ekki lengur fjárstuðning frá Bandaríkjastjórn.

Pompeo heimsótti í dag Psagot-landtökubyggð gyðinga á Vesturbakkanum sem er hersetinn af Ísraelum. Hann ætlar einnig að heimsækja landtökumenn í Gólanhæðum, sýrlensku landsvæði sem Ísraelar hernámu í sex daga stríðinu árið 1967 og innlimuðu árið 1981.

Palestínumenn mótmæltu heimsókn Pompeo í al-Bireh í gær, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Grundvöllurinn að fordæmalausri heimsókn Pompeo til landtökubyggðanna var lagður í fyrra þegar ráðherrann sneri við áratugalangri stefnu Bandaríkjastjórnar og lýsti því yfir að byggðirnar stönguðust „ekki endilega“ á við alþjóðalög. Palestínumenn fordæmdu stefnubreytinguna en landtökubyggðirnar eru á svæðum sem þeir vilja að verði hluti af sjálfstæðu ríki þeirra.

Trump forseti viðurkenndi yfirráð Ísraela yfir Gólanhæðum í fyrra þrátt fyrir að Sýrland geri enn tilkall til þeirra. Önnur ríki hafa ekki fetað í fótspor Bandaríkjastjórnar. Sýrlensk stjórnvöld hafa sagt viðurkenningu Trump „árás“ á fullveldi sitt.

Fleiri en 600.000 gyðingar búa nú í um 140 landtökubyggðum sem hafa verið reistar frá því að ísraelski herinn hernam Vesturbakkann og Austur-Jerúsalem árið 1967.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×