Fótbolti

Werner hetjan í sigri Þjóðverja

Ísak Hallmundarson skrifar
Werner skoraði tvö mörk í kvöld.
Werner skoraði tvö mörk í kvöld. getty/Robert Michael

Þýskaland vann 3-1 sigur á Úkraínu í riðli 4 í A-deild Þjóðadeildar UEFA í kvöld á meðan Sviss og Spánn gerðu 1-1 jafntefli.

Roman Yaremchuk kom Úkraínu óvænt yfir á 12. mínútu leiksins en Leroy Sané jafnaði metin fyrir Þýskaland á 23. mínútu. Timo Werner kom Þjóðverjum yfir á 33. mínútu og staðan 2-1 í hálfleik. Werner var síðan aftur á ferðinni á 64. mínútu og innsiglaði 3-1 sigur Þýskalands. Með sigrinum tyllir Þýskaland sér á toppinn í riðlinum með níu stig þegar einn leikur er eftir. Úkraína er í þriðja sæti með sex stig.

Sviss tók á móti Spáni og Remo Freuler kom heimamönnum yfir á 26. mínútu. Þannig var staðan í hálfleik. Á 57. mínútu fengu Spánverjar vítaspyrnu og fyrirliðinn Sergio Ramos fór á punktinn. Hann lét hinsvegar Yann Sommer verja frá sér. Þeir Ramos og Sommer mættust síðan aftur á vítapunktinum á 80. mínútu og aftur náði Sommer að verja frá varnarmanninum. Sommer hefði auðveldlega getað verið hetja leiksins en á 89. mínútu kom loks jöfnunarmark Spánverja þegar Gerard Moreno skoraði og vítaskyttan getur því andað léttar.

Spánn er með átta stig í öðru sæti riðilsins, einu stigi á eftir Þýskalandi, en Sviss er með þrjú stig á botninum. Spánn og Þýskaland mætast í hreinum úrslitaleik um efsta sætið næsta þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×