Erlent

Biden setur bar­áttuna við kórónu­veiruna efst á for­gangs­listann

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Joe Biden heitir því að sameina bandarísku þjóðina sem forseti og ætlar að leggja mikla áherslu á að berjast gegn Covid-19.
Joe Biden heitir því að sameina bandarísku þjóðina sem forseti og ætlar að leggja mikla áherslu á að berjast gegn Covid-19. Getty/Peter Summers

Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, hyggst gera það að forgangsverkefni eftir að hann tekur við embætti að ná tökum á faraldri kórónuveirunnar í landinu. Í dag er búist við að hann tilkynni um tólf manna aðgerðanefnd sem verður gert að taka á málinu.

Eftir því sem greint er frá á vef BBC verður sýnatökum meðal annars fjölgað og fólk verður hvatt til að nota andlitsgrímur meira en nú er.

Donald Trump hefur enn ekki viðurkennt ósigur sinn í baráttunni um Hvíta húsið þrátt fyrir að stærstu fjölmiðlar landsins hafi hver á fætur öðrum greint frá því um helgina að Biden hefði haft betur.

Þó það hafi enga stjórnsýslulega merkingu hefur löng hefð skapast fyrir því að sá sem tapi kosningum, eftir að því hefur verið lýst því yfir hver muni sigra kosningarnar, játi ósigur. Trump hefur hins vegar ekki ljáð máls á slíku.

Þrátt fyrir afstöðu Trumps hafa Biden og teymi hans hafið undirbúning fyrstu verka hans í embætti forseta. Auk baráttunnar við kórónuveiruna er talið að á meðal fyrstu verka Bidens verði að undirrita nokkrar forsetatilskipanir sem muni draga til baka umdeildar ákvarðanir Trumps.

Samkvæmt fjölmiðlum ytra hyggst Biden aftur skuldbinda Bandaríkin samkvæmt Parísarsamkomulaginu svokallaða.

Samkomulagið er frá árinu 2015 og kveður á um skuldbindingar ríkja til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Bandaríkin gengu úr samkomulaginu síðastliðinn miðvikudag, daginn eftir forsetakosningarnar, í samræmi við ákvörðun Trumps.

Þá hyggst Biden einnig draga til baka þá ákvörðun Trumps að draga Bandaríkin út úr samstarfi þjóða í Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Þá ætlar Biden að binda endi á ferðabann Trumps á fólk frá nokkrum ríkjum þar sem múslimar eru í meirihluta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×