Fótbolti

Van Basten segist hafa átt að hætta fyrr: „Sársaukinn var ekki þess virði“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marco van Basten varð tvisvar sinnum Evrópumeistari með AC Milan.
Marco van Basten varð tvisvar sinnum Evrópumeistari með AC Milan. getty/Alessandro Sabattini

Marco van Basten, fyrrverandi framherji Ajax, AC Milan og hollenska landsliðsins, segir að hann hefði átt að hætta fyrr í fótbolta.

Van Basten lagði skóna á hilluna þegar hann var þrítugur eftir að hafa glímt við erfið ökklameiðsli í langan tíma. Meiðslin hafa enn áhrif á Hollendinginn og hann segist varla geta sparkað í bolta í dag. 

„Allur sársaukinn var ekki þess virði. Ökklameiðslin höfðu svo mikil áhrif á mig, líka á daglegt líf. En á þessum tíma var fótboltinn mér allt,“ sagði Van Basten við BBC.

„Núna þegar ég er eldri á ég mér líf án fótboltans. Það er meira í lífinu en fótbolti. Í dag hefði ég tekið aðra ákvörðun.“

Eftir að hafa ekkert spilað í tvö ár hætti Van Basten loks í fótbolta 1995.

„Ég dó sem fótboltamaður,“ sagði Van Basten. „Ég get ekki spilað fótbolta í dag. Það er of erfitt. Ég get ekki skotið boltanum eða gert neitt með fætinum. Það kom varla sá dagur sem ég snerti ekki bolta en síðan var þetta allt skyndilega búið. Það var mjög sársaukafullt.“

Van Basten varð Evrópumeistari með hollenska landsliðinu 1988 og var hluti af frábæru liði Milan í kringum 1990. Hann varð þrisvar sinnum ítalskur meistari með Milan og tvisvar sinnum Evrópumeistari. Van Basten fékk Gullboltann í þrígang á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×