Innlent

Telja ófært að spítalinn tapi rödd læknaráðs

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Læknaráð var skipað bráðabirgðastjórn á fundi þess í gær.
Læknaráð var skipað bráðabirgðastjórn á fundi þess í gær. Vísir/Vilhelm

Læknar endurvöktu læknaráð Landspítalans úr dvala í gærmorgun þegar fundur var haldinn á vegum ráðsins í fyrsta skipti frá því að ný lög um heilbrigðisþjónustu voru samþykkt í sumar. Í lögunum höfðu ákvæði um lækna- og hjúkrunarráð verið felld út og þess í stað kveðið á um sameiginlegt fagráð allra heilbrigðisstétta á heilbrigðisstofnunum.

Á fundinum var samþykkt bráðabirgðastjórn sem skipuð er fráfarandi stjórn læknaráðs og mun hún skilgreina framtíðarhlutverk ráðsins þar til ný stjórn verður skipuð.

Þorbjörn Jónsson, sérfræðilæknir hjá Blóðbankanum og stjórnarmeðlimur, segir í tilkynningu á vef Læknafélags Íslands ráðið gegna mikilvægu hlutverki.

„Okkar rödd hefur heyrst í gegnum tíðina og full ástæða til að læknaráð haldi í einhverri mynd áfram starfi sínu þó að löggjafinn hafi viljað leysa þennan selskap upp. Það er nokkuð ljóst að nýtt fagráð sem er skipað einum fulltrúa úr mörgum stéttum og skipað af forstjóra verður líklega aldrei með sjálfstæða rödd heldur ein samhljóma rödd inn í stjórnkerfi spítalans,“ segir Þorbjörn.

Í bráðabirgðastjórn eru Berglind Bergmann Sverrisdóttir sérnámslæknir í lyflækningum, Guðrún Dóra Bjarnadóttir sérfræðilæknir í geðþjónustu, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir sérfræðilæknir á meðferðarsviði, Rafn Hilmarsson sérfræðilæknir í þvagfæraskurðlækningum og Þorbjörn Jónsson sérfræðilæknir hjá Blóðbankanum.

Reynir Arngrímsson formaður Læknafélagsins sagði á fundinum að ófært væri að spítalinn tapaði rödd læknaráðs.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×