Innlent

Heldur enn í vonina um myndarlega loðnuvertíð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Loðnan er þarna, við þurfum bara að finna hana, segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Loðnan er þarna, við þurfum bara að finna hana, segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Þriðja árið í röð stefnir í loðnubrest en Hafrannsóknastofnun lagði til í dag að áður útgefinn upphafskvóti yrði afturkallaður. Talsmaður sjávarútvegsfyrirtækja heldur enn í vonina og hvetur til öflugrar loðnuleitar í vetur. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Í samfélögum eins og Vestmannaeyjum voru forystumenn í sjávarútvegi farnir að gera sér vonir um 400 þúsund tonna loðnuvertíð í vetur, með 20 til 30 milljarða króna útflutningstekjum, eftir áður útgefinn upphafskvóta. Í dag kom svo bakslagið. Eftir nýafstaðna loðnumælingu hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar leggur stofnunin til að engar veiðar verði leyfðar.

Drekkhlaðin loðnuskip að koma að landi í Vestmannaeyjahöfn. Myndin var tekin á loðnuvertíð fyrir áratug.Mynd/Óskar.

„Síðastliðin tvö ár hafa auðvitað verið ótrúleg vonbrigði. Þannig að við fórum vongóð inn í þetta haust, miðað við þann upphafskvóta sem hafði verið gefinn, 170 þúsund tonn. Þannig að, - jú, að sjálfsögðu eru þetta vonbrigði.

En úr þessu verður að spila. Og ég held enn í vonina – og töluvert mikla von – um að við fáum myndarlega loðnuvertíð,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Hafrannsóknastofnun tekur reyndar fram að hafís á norðanverðu leitarsvæðinu milli Íslands og Grænlands hafi hindrað leit og loðna hafi verið að finnast í námunda við hafísinn. Því gæti verið um vanmat að ræða.

„Þá ríður á að við förum í öfluga leit í lok árs, byrjun árs; desember, janúar, febrúar, til þess að finna þessa loðnu. Því hún er þarna. Ég er sannfærð um það,“ segir Heiðrún.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×