Sport

Keppnis­í­þróttir með snertingu leyfðar: Engir á­horf­endur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
KR - Stjarnan, Domino's deild karla. Veturinn 2019-2020. Körfubolti.
KR - Stjarnan, Domino's deild karla. Veturinn 2019-2020. Körfubolti.

Hertar samkomutakmarkanir taka gildi 5. október. Keppnisíþróttir með snertingu verða leyfðar en engir áhorfendur verða hins vegar leyfðir á íþróttaviðburðum. 

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu kemur fram að engir áhorfendur verði leyfðir á íþróttaviðburðum eftir að takmarkanirnar taki gildi. Þýðir það að engir áhorfendur verða leyfðir á leik Íslands og Rúmeníu í umspili um sæti á EM í knattspyrnu.

„Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis um hertari samfélagslegar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu Covid-19. Ný reglugerð þess efnis tekur gildi mánudaginn 5. október og verður birt á morgun,“ segir í yfirlýsingunni.

Það verða 20 manna fjöldatakmarkanir með nokkrum undantekningum, þar má nefna 50 manna hámark í útförum og 100 manna takmark í tilteknum verslunum. Krám, skemmtistöðum, spilasölum og líkamsræktarstöðvum verður lokað. Sundlaugar verða áfram opnar en með þrengri fjöldatakmörkunum.

Einnig kemur fram að sérstök grein verði gerð fyrir reglum í íþrótta- og menningarstarfsemi í auglýsingu en ekki verður gert ráð fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum. Virða þarf eins metra nánd­ar­tak­mörk­un inn í bún­ings­klef­um og sótt­hreinsa þarf öll keppnisáhöld milli not­enda eins og kost­ur er, íþróttir munu samt sem áður vera leyfðar. 

Sér­sam­bönd Íþróttasambands Íslands verða að gera sér regl­ur um nán­ari fram­kvæmd æf­inga og leikja.

Hér má finna minnisblað Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnarlæknis.

Fréttin hefur verið uppfærð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.