Erlent

Greiða atkvæði um frjálsa för innan Evrópu í Sviss

Kjartan Kjartansson skrifar
Plaköt til stuðnings tillögunni um að Sviss hætti frjálsri för fólks innan ESB. Þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram um þá tillögu og fleiri á morgun.
Plaköt til stuðnings tillögunni um að Sviss hætti frjálsri för fólks innan ESB. Þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram um þá tillögu og fleiri á morgun. AP/Peter Schneider/Keystone

Svisslendingar greiða atkvæði um hvort þeir vilja afnema frjálsa för fólks til og frá Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu á morgun. Stuðningsmenn þess vilja herða enn takmarkanir á innflytjendur en andstæðingar varar við því að afleiðingarnar gætu orðið verri en útganga Bretlands úr Evrópusambandinu.

Sviss stendur utan Evrópusambandsins en nýtur aðgangs að innri markaði þess. Í staðinn gekkst Sviss undir grundvallarstefnu sambandsins um frjálsa för fólks á milli landa innan þess og tekur þátt í Schengen-landamærasamstarfinu.

Tillaga Svissneska þjóðarflokksins (SVP) er að Sviss hætti að leyfa frjálsa för fólks yfir landamærin. Með því geti stjórnvöld haft meiri stjórn á landamærunum og hverjir fá að setjast að í landinu. Stuðningsmenn gera lítið úr hættunni á að Sviss tapi fríverslunarsamningum við ESB. Thomas Aeschi frá SVP segir þannig að það eina sem sé líklegt til að breytast sé að „Svisslendingar borði minna af frönskum osti og Frakkar borði minna af svissneskum osti“.

Andstæðingar tillögunnar óttast að verði hún samþykkt eigi Sviss eftir að lenda í djúpri efnahagskreppu. Hundruð þúsunda Svisslendinga misstu jafnframt frelsi til þess að búa og starfa í Evrópu. Evrópusambandslönd eru langstærstu viðskiptalönd Sviss.

Ríkisstjórnin hvetur landsmenn til þess að hafna tillögunni. Karin Keller-Suter, dómsmálaráðherra, varar við því að segi Svisslendingar skilið við frjálsa för innan Evrópu hafi það verri afleiðingar í för með sér en Brexit, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Naumur meirihluti Svisslendinga samþykkti tillögu SVP um að setja kvóta á fjölda innflytjenda frá Evrópusambandslöndum árið 2014. Síðustu skoðanakannanir benda til þess að allt að 60% kjósenda séu andsnúnir tillögunni um að ganga enn lengra í að takmarka fjölda Evrópubúa í landinu, 35% styðji hana og aðrir séu óákveðnir, að sögn AP-fréttastofunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×