Fótbolti

Suárez sakaður um að hafa svindlað á ítölskuprófi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luis Suárez hefur að öllum líkindum leikið sinn síðasta leik fyrir Barcelona. Hver næsti áfangastaður hans á ferlinum verður er enn óljóst.
Luis Suárez hefur að öllum líkindum leikið sinn síðasta leik fyrir Barcelona. Hver næsti áfangastaður hans á ferlinum verður er enn óljóst. getty/David Ramos

Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að lögreglan þar í landi rannsaki nú ásakanir á hendur Luis Suárez um að hann hafi svindlað á prófi til flýta fyrir félagaskiptum sínum til Juventus.

Suárez fór til Perugia á Ítalíu í síðustu viku og tók ítölskupróf til að fá ítalskt ríkisfang sem átti að hjálpa honum að komast til Juventus. Suárez náði prófinu en svo virðist sem brögð hafi verið í tafli.

Greint hefur verið frá því að Suárez hafi vitað öll svörin fyrirfram og því náð prófinu þrátt fyrir að kunna ekkert í ítölsku.

„Hann talar ekki stakt orð í ítölsku. Ef blaðamenn myndu spyrja hann spurninga væri hann úti á túni. Hann þénar tíu milljónir evra á ári. Hann þarf að standast þetta próf,“ hefur Repubblica eftir ónefndum embættismanni.

Málið er til rannsóknar hjá ítölsku lögreglunni og ef Suárez verður fundinn sekur á hann von á þungri refsingu.

Félagaskipti Úrúgvæans til Juventus duttu upp fyrir og félagið er nú nálægt því að ganga frá kaupunum á Álvaro Morata frá Atlético Madrid.

Suárez gæti tekið stöðu Moratas hjá Atlético Madrid, að því gefnu að Barcelona leyfi honum að fara þangað. Spænskir fjölmiðlar greina frá því að Atlético Madrid sé eitt þeirra félaga sem Suárez megi ekki fara til þegar Barcelona riftir samningi hans.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.