Sport

Var búinn að vera algjör skúrkur allan leikinn en varð svo hetjan í blálokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðsmenn Tennessee Titans fagna sparkaranum Stephen Gostkowski eftir að hann tryggði liðinu sigurinn.
Liðsmenn Tennessee Titans fagna sparkaranum Stephen Gostkowski eftir að hann tryggði liðinu sigurinn. AP/David Zalubowski

Tennessee Titans og Pittsburgh Steelers fögnuðu sigri í NFL-deildinni í nótt en þá voru spilaðir síðustu leikirnir í fyrstu umferðinni.

Fyrstu umferð NFL-deildarinnar lauk í nótt með tveimur leikjum. Pittsburgh Steelers byrjaði tímabilið með 26-16 sigri á New York Giants en Tennessee Titans vann nauman 16-14 sigur á Denver Broncos.

Sparkarinn Stephen Gostkowski, fyrrum þrefaldur NFL-meistari með New England Patriots var að spila sinn fyrsta leik með Tennessee Titans liðinu og átti mjög sérstakt kvöld. Hann var algjör skúrkur fram eftir öllum leik en varð svo hetjan á úrslitastundu.

Í raun hafði ekkert gengið upp hjá Stephen Gostkowski allan leikinn og hann hafði klúðrað fjórum spörkum í leiknum þegar kom fram á lokasekúndur leiksins. Þetta var í fyrsta sinn á ferlinum sem Gostkowski klikkar á svo mörgum spörkum í sama leiknum. Sannkölluð martraðarbyrjun.

Stephen Gostkowski skoraði hins vegar vallarmark sautján sekúndum fyrir leikslok og tryggði Tennessee Titans liðinu með því sigurinn. Stephen Gostkowski var samt ekkert ofboðslega kátur eftir leikinn.

„Ég er vonsvikinn út í sjálfan mig og er bæði vandræðalegur og pirraður. Við náðum sem betur fer að vinna og strákarnir fara glaðir heim. Ég kom þeim hins vegar í mikil vandræði,“ sagði Stephen Gostkowski.

Leikstjórnandinn Ryan Tannehill lék vel með liði Tennessee Titans og Derrick Henry hljóp 116 jarda með boltann.

Ben Roethlisberger snéri aftur hjá Pittsburgh Steelers og átti þrjár snertimarkssendingar í 26-16 sigri á New York Giants. Roethlisberger meiddist í öðrum leik á síðasta tímabili og missti af öllum leikjum eftir það.

Roethlisberger er orðinn 38 ára gamall og hefur verið hjá Pittsburgh Steelers síðan 2004.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×