Innlent

Lík­leg heims­meta­lægð nálgast landið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það var afar hvasst í höfuðborginni í dag. Lægðin á morgun verður öllu rólegri.
Það var afar hvasst í höfuðborginni í dag. Lægðin á morgun verður öllu rólegri. Vísir/Vilhelm

Lægðin sem færir okkur hvassviðri, úrkomu og gular viðvaranir á morgun gæti slegið met, að því er fram kemur í færslu á veðurvefnum Blika.is. Lægðin mun líklegast ekki valda miklum glundroða á Íslandi en dýpt hennar gæti þó orðið söguleg.

Óveðrið sem gekk yfir landið í dag hefur valdið miklu tjóni á sunnanverðu landinu í dag. Rauðar viðvaranir voru í gildi í nokkrum landshlutum, sums staðar í fyrsta skipti, en veðrið hefur nú náð hámarki víðast hvar og dregið verulega úr vindi.

Ekkert lát er þó á lægðagangi. Ný lægð nálgast nú landið úr suðvestri og kemur upp að austanverðu landinu í fyrramálið með talsverðri úrkomu og vindi. Gular viðvaranir eru í gildi á Suðurlandi, Suðausturlandi og á Vestfjörðum en vindur gæti orðið allt að 20 m/s og hviður náð 40 m/s.

Sveinn Gauti Einarsson umhverfisverkfræðingur fjallar um lægð morgundagsins í færslu á veðurvefnum Bliku.is í dag. Þar segir hann að dýpt lægðarinnar á morgun veki sérstaka athygli. GFS-reiknilíkanið sem Blika byggi á reikni 915 hPa þrýsting í lægðarmiðjunni, „sem er með því lægsta sem sést,“ skrifar Sveinn.

Viðvaranir morgundagsins. Skjáskot/veðurstofan

Það séu tvær lægðir sem keppi um þann „vafasama heiður“ að vera dýpstu lægðir sögunnar á heimsvísu.

„Báðar þessar lægðir náðu sinni mestu dýpt í grennd við Ísland. Um er að ræða 912 - 915 hPa lægð sem náði mestu dýpt suðaustur af Íslandi þann 10. janúar 1993 og svo 916 hPa (af sumum talin 912 - 913 hPa) sem dólaði á hafinu milli Íslands og Grænlands 15. desember árið 1986. Þrátt fyrir mikla dýpt ollu þessar lægðir ekki teljandi vandræðum, allavega á Íslandi, enda var lægðamiðjan fjarri landi.“

Það verði því spennandi að sjá hvort nýtt „lægðaheimsmet“ verði slegið á morgun, þ.e. verði minni en 913 hPa, þó að slíkt verði að teljast ólíklegt – en langt í frá útilokað.

„Það er þó nokkuð víst að lægðin verður sú dýpsta á þessari öld,“ skrifar Sveinn.

Þá getur hann þess sérstaklega að lægðin, sem nefnd hefur verið „Denni dæmalausi“ í fjölmiðlum ytra, sé afar umfangsmikil. Veðurviðaranir vegna hennar hafi verið gefnar út í tólf löndum: Austurríki, Sviss, Spáni, Frakklandi, Írlandi, Íslandi, Noregi, Portúgal, Svíþjóð, Litháen, Slóveníu og Bretlandi.

Færsla Sveins í heild.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.