Sport

Sportpakkinn: Alvarlega slasaður eftir rosalegan árekstur í Daytona 500

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bíll Ryans Newman kastaðist upp í loftið.
Bíll Ryans Newman kastaðist upp í loftið. vísir/getty

Bandaríski ökuþórinn Ryan Newman slasaðist alvarlega í árekstri í Daytona 500 kappakstrinum í Flórída í gær. Daytona 500 er stærsti kappakstur tímabils á NASCAR-mótaröðinni.

Áreksturinn varð á lokahring kappakstursins. Newman var með forystu þegar Ryan Blaney keyrði aftan á hann.

Bíll Newmans snerist, fór á vegg, skaust þaðan upp í loftið og þegar bíllinn lenti klessti annar ökumaður á hann. Bíll Newmans rúllaði svo eftir brautinni í ljósum logum. Myndband af árekstrinum má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sportpakkinn: Rosalegur árekstur í Daytona 500

Newman var fluttur á spítala í skyndi. Samkvæmt tilkynningu frá liði hans, Roush Fenway Racing, er hann alvarlega slasaður en ekki í lífshættu.


Newman, sem er 42 ára og ekur Ford Mustang, vann Daytona 500 í fyrsta og eina skipti á ferlinum fyrir tólf árum.

Denny Hamlin hrósaði sigri í Daytona 500. Þetta er annað árið í röð og í þriðja sinn á síðustu fimm árum sem Hamlin vinnur Daytona 500 kappaksturinn.

Það mátti ekki tæpara standa en Hamlin kom í mark 0,014 sekúndum á undan Blaney. Aldrei hefur munað jafn litlu á tveimur efstu mönnum í Daytona 500.

Venjulega eru eknir 200 hringir í Daytona 500 en að þessu sinni voru þeir 209.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.