Sport

Alþjóða íþróttadómstóllinn taldi sig ekki hafa vald til að hjálpa konunum að ná fram jafnrétti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andreea Arsine frá Rúmeníu í keppni í 20 km göngu á ÓL í Ríó 2016.
Andreea Arsine frá Rúmeníu í keppni í 20 km göngu á ÓL í Ríó 2016. Getty/ Julian Finney

Nokkrar af bestu göngukonum heims vildu fá jafnrétti í keppnisgreinum á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar en verður ekki ágengt í baráttunni sinni. Alþjóða íþróttadómstóllinn hafnaði kröfu þeirra.

Hópur af bestu göngukonum heims hefur barist fyrir því að þær fái að keppa í 50 km göngu á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar alveg eins og karlarnir.

Íþróttakonurnar eru sjö talsins og í þeim hóp er portúgalski heimsmeistarinn frá 2017, Ines Henriques.

Hópurinn áfrýjaði ákvörðun Alþjóðaólympíunefndarinnar og World Athletics til Alþjóða íþróttadómstólsins en þeirri áfrýjun hefur nú verið vísað frá. Ástæðan var sú að Alþjóða íþróttadómstólsins, CAS, taldi það ekki vera á sínu valdi að ákveða keppnisgreinar á Ólympíuleikum.


World Athletics stýrir frjálsíþróttakeppninni á Ólympíuleikunum og hafði bætt 50 kílómetra göngu kvenna inn á síðustu tvö heimsmeistaramót, 2017 og 2019. Það hefur aftur á móti aldrei verið keppt í 50 km göngu kvenna á Ólympíuleikum og Alþjóðaólympíunefndin hefur engan áhuga á að breyta því.

Karlarnir hafa hins vegar keppt í 50 km göngu síðan á Ólympíuleikunum 1932, fyrir utan leikana í Montreal 1976. Karlarnir hafa einnig keppt í 20 km göngu frá því á leikunum í Helsinki 1952.

Konurnar hafa keppt í 20 kílómetra göngu frá leikunum í Sydney árið 2000 en þær hafa ekki fengið að keppa í löngu göngunni.

Göngukonurnar vildu fá að keppa í jafnmörgum greinum og karlarnir á leikunum í sumar en því verður ekki breytt. Göngukarlarnir geta unnið tvö gull á ÓL 2020 en konurnar aðeins eitt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.