Innlent

Helgi biðst lausnar frá em­bætti hæsta­réttar­dómara

Atli Ísleifsson skrifar
Gömul mynd af dómurum Hæstaréttar af vef dómstólsins. Helgi I. Jónsson er annar frá hægri í efri röð.
Gömul mynd af dómurum Hæstaréttar af vef dómstólsins. Helgi I. Jónsson er annar frá hægri í efri röð. Hæstiréttur

Helgi I. Jónsson hefur beðist lausnar frá embætti hæstaréttardómara. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu þar sem dagskrá ríkisstjórnarfundar í dag er tíunduð.

Helgi er fæddur árið 1955 og verður því 65 ára á vordögum. Hann var skipaður hæstaréttardómari á haustdögum 2012 og hefur gegnt embætti varaforseta réttarins frá 2017.

Hann starfaði sem héraðsdómari við héraðsdóm Reykjavíkur á árunum 1992 til 2011, og þar af dómstjóri frá 2003. Þá var hann settur hæstaréttardómari á árunum 2011 til 2012.

Nokkur breyting hefur orðið á skipan Hæstaréttar að undanförnu, en Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson létu af stöfum fyrir áramót. Ingveldur Einarsdóttir var skipuð dómara samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra og tók hún við stöðunni um áramót.

Hafliði Helgason, upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins, segist gera ráð fyrir að embættið verði auglýst laust til umsóknar á næstunni þó að engar tímasetningar liggi þar fyrir að svo stöddu.


Tengdar fréttir

Ingveldur verður Hæstaréttardómari

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur gert tillögu til forseta Íslands um skipun Ingveldar Einarsdóttur landsréttardómara sem dómara við Hæstarétt Íslands frá og með áramótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×