Enski boltinn

Ancelotti rifjaði upp tapið á móti Liverpool í Istanbul eftir hörmungar Everton í uppbótartíma í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erfið kvöld fyrir ítalska stjórann. Carlo Ancelotti 2005 og 2020.
Erfið kvöld fyrir ítalska stjórann. Carlo Ancelotti 2005 og 2020. Getty/Samsett

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, var óvenju sáttur við sitt lið þrátt fyrir klúðrið í blálokin á móti Newcastle í gærkvöldi.

Everton var 2-0 yfir og í frábærum málum þegar voru komnar tvær mínútur af uppbótatíma í leik liðsins í ensku úrvalsdeildinni en tókst á einhvern ótrúlegan hátt að missa leikinn niður í jafntefli.

Newcastle skoraði tvö mörk í uppbótatímanum og það liðu aðeins 102 sekúndur á milli markanna. Everton er alls búið að fá á sig sjö mörk á leiktíðinni eftir 90. mínútu eða fjórum fleira en næsta lið.

„Ég er mjög ánægður með hvernig við spiluðum. Leikmennirnir mínir eru mjög leiðir núna en ég sagði við þá að ég væri með meiri reynslu en þeir,“ sagði Carlo Ancelotti eftir leikinn.



„Ég hef tapað úrslitaleik í Meistaradeildinni eftir að hafa verið 3-0 yfir svo að svona hlutir gerast stundum,“ sagði Carlo Ancelotti. Hann rifjaði þarna upp úrslitaleik Liverpool og AC Milan í Istanbul 25. maí 2005.

Carlo Ancelotti var þá stjóri AC Milan og sá þá Paolo Maldini og Hernán Crespo (2 mörk) koma liðinu í 3-0 í fyrri hálfleik. Steven Gerrard, Vladimír Smicer og Xabi Alonso jöfnuðu metin á fyrstu fimmtán mínútunum í seinni hálfleik og Liverpool vann síðan 3-2 í vítakeppni.

„Það eru hlutir í fótbolta sem þú hefur ekki stjórn á. Við fengum óþarfa mörk á okkur en frammistaðan var góð. Við spiluðum frábæran leik og vorum óheppnir. Þetta breytir samt engu og enska úrvalsdeildin heldur áfram. Við komust í 2-0, spiluðum sóknarbolta og fengum færi til að skora fleiri mörk. Svona hlutir gerast ekki oft en þeir gerast,“ sagði Carlo Ancelotti.

„Við verðum að halda áfram allar 90 mínúturnar en ég ætla ekki að segja neitt við mína leikmenn. Þeir spiluðu vel og svona getur gerst. Við vorum bara óheppnir í þessum leik.,“ sagði Ancelotti.

Gylfi Þór Sigurðsson gat ekki spilaði með Everton vegna nárameiðsla en þetta er annar leikurinn í röð sem hann missir af.

Everton er með 30 stig í 12. sæti eftir þetta jafntefli en hefði verið í áttunda sæti ef liðið hefði unnið leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×